„Í guðana bænum kjósið mig. Nú er ég loksins mættur til leiks,“ sagði Jón Gnarr fosetaframbjóðandi á fundi sem hann bauð til við Tangann á uppstigningardag. Veður var gott og nokkur fjöldi var mættur til að hlíða á boðskap Jóns. „Ég hef verið að sinna öðrum verkefnum en nú get ég einbeitt mér að kosningabaráttunni.“

Jón sagði þörf fyrir skapandi fólk og það ætti líka við Bessastaði. „Íslenskt listafólk hefur náð frægð um allan heim. Er í fremstu röð sem ekki er hægt að segja um íslenska stjórnsýslu og stjórnmálamenn enda eftirspurnin ekki mikil.“

Jón frábað sér öll leiðindi og til að undirstrika það brugðu hann og Sigurjón sér í hlutverk Tvíhöfða sem í áratugi hefur skemmt landsmönnum. Úr varð frábær skemmtun, með kannski ekki alveg í hefðbundnum forsetaslagsstíl en hver hefur sinn háttinn á. Jón Gnarr nær til unga fólksins en segist hafa eitthvað að bjóða fólki á öllum aldri.

Hvað sem öðru líður gefur hann baráttunni um Bessastaði lit og gleði, eitthvað sem hressir og kætir.