Glæsilegir tónleikar fóru fram í Höllinni föstudagskvöldið 3. maí síðastliðinn. Tónleikarnir voru hluti af styrktarsöfnun Eyjamanna fyrir Grindvíkinga. Alls hafa safnast 12,5 milljónir í þessu framtaki sem sjálfboðaliðar í Vestmannaeyjum sáu um. Söfnunarnefndin var skipuð þeim Höllu Svavarsdóttur, Njáli Ragnarssyni, Sigurhönnu Friðþórsdóttur, Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, Bjarna Ólafi Guðmundssyni og Gísla Valtýssyni.

Frábærir tónleikar
Kristín María Birgisdóttir upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar var á meðal tónleikagesta en hún veitti söfnunarupphæðinni viðtöku fyrir hönd Grindvíkinga. Hún var hæstánægð með kvöldið þegar blaðamaður Eyjafrétta ræddi við hana. „Tónleikarnir voru frábærir, algjör veisla þar sem engu var til sparað. Það tónlistarfólk sem steig á stokk er ótrúlega hæfileikaríkt og kórinn algjörlega magnaði upplifunina. Það var líka ljúft að sjá fána Grindavíkurbæjar blakta við hún þegar á staðinn var komið og ekki skemmdi fyrir að sjá hversu margir mættu í Höllina.“

Eldgos og rýming tengir okkur saman
Hvernig hefur þessu framtaki verið tekið meðal Grindvíkinga? Þegar tónleikarnir voru fyrst auglýstir deildu ótrúlega margir viðburðinum á Facebook og það var augljóst þakklæti að sjá í færslunum. Það er og hefur verið sérstakt og eiginlega einstakt samband milli Grindvíkinga og Vestmanneyinga. Við rýmingu og eftir náttúruhamfarirnar hafa þessi tengsl styrkst mikið enda hefur hlýhugur og stuðningur Eyjamanna verið einstakur og áberandi. Það er ekki spurning að reynsla ykkar af eldgosi og rýmingu tengir okkur saman.

Gott að finna stuðning
Kristín segir framtak eins og þetta hafa mikla ótrúlega mikla þýðingu fyrir Grindvíkinga. „Ég skal alveg vera hreinskilin með það að oft hef ég óttast að fólk fái leið á okkur og nenni ekki lengur að hlusta á þessa ömurlegu stöðu sem við erum í. Að við færum úr því að vera hetjur yfir í hyski. Sem er auðvitað eitthvað sem ekki er að gerast heilt yfir. Það er því gott að finna þennan stuðning og hlýhug úr Eyjum. En staðan er ekki góð og fólki líður illa. Það saknar samfélagsins og þráir ekkert heitar er að fá að byrja á að byggja upp bæinn. Mín von er sú að við getum farið að færa okkur heim á ný, sem allra fyrst og hefja uppbyggingu.“

Kristín segir fjármunina fara í góðan farveg. „Það hefur verið sérstök úthlutunarnefnd á vegum félagsþjónustu bæjarins þar sem aðilar á vegum félagsþjónustunnar ásamt sóknarpresti sjá til þess að styrkir vegna ástandsins fari á þá staði þar sem þeirra er þörf. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það innan stjórnsýslu bæjarins nákvæmlega hvernig þessi styrkur verður nýttur.“

Þakklát
Hún hafði þetta að segja að lokum. „Mig langar að nýta tækifærið og þakka yndislegu fólki í Vestmannaeyjum dýrmætan hlýhug. Þeim sem mættu á tónleikana, styrktu söfnunina með beinu og óbeinu framlagi, fyrirtækjunum sem lögðu söfnuninni lið og Vestmannaeyjabæ fyrir þeirra  framlag. Þakkir færum við líka öllum þeim sem undirbjuggu tónleikana og Dadda fyrir allt.

Fyrir hönd Grindvíkinga færi ég ykkur bestu þakkir.“

Ljósmynd: Óskar Pétur, Fulltrúar Grindavíkur sem tóku við gjöfinni. Gunný Gunnlaugsdóttir, Guðjón Örn Sigtryggsson, Kristín Maria Birgisdóttir, Rakel Einarsdóttir, Sigurósk Erlingsdóttir, Kristín Gísladóttir og Pálmi Þrastarsson