Vestmannaeyjabær hefur valið Jarl Sigurgeirsson til að gegna stöðu skólastjóra Tónlistarskóla Vestmannaeyja.
 
Jarl er fæddur og uppaldinn í Vestmannaeyjum. Hann hóf tónlistarnám á unga aldri og spilar á trompet auk gítars og bassa. Hann hefur gengt starfi deildarstjóra, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra (í afleysingum) við Tónlistarskólann frá árinu 2006. Jafnframt hefur hann verið stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá árinu 2007. Þá er hann í hljómsveitinni Brimnes, syngur með söngsveitinni Stuðlum, Karlakór Vestmannaeyja og Kirkjukór Vestmannaeyja. Alls sóttu fjórir um stöðu skólastjóra Vestmannaeyja.
 
Vestmannaeyjabær þakkar fráfarandi skólastjóra, Stefáni Sigurjónssyni fyrir hans góðu störf við skólann. Stefán hóf starf við Tónlistarskóla Vestmannaeyja árið 1976 fyrst sem stundakennari og í fastri stöðu kennara frá árinu 1983. Hann hefur gengt starfi aðstoðarskólastjóra og skólastjóra auk þess sem hann starfaði sem stjórnandi Lúðarsveitar Vestmannaeyja á árunum 1988 – 2007.