Búið að ráða framkvæmdarstjóra Herjólfs

Guðbjartur Ellert Jónsson

Á fundi stjórnar Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. í gær, þann 17. september sl., var það einróma niðurstaða stjórnar félagsins að ráða í starf framkvæmdastjóra, Guðbjart Ellert Jónsson.

Guðbjartur Ellert Jónsson er fæddur á Akureyri árið 1963, og ólst þar upp. Guðbjartur er giftur Önnu Láru Finnsdóttir og eiga þau þrjú uppkomin börn. Guðbjartur lauk BS námi í viðskiptafræði frá University of South Carolina í Bandaríkjunum árið 1990. Guðbjartur lagði svo stund á meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands árið 2004.

Guðbjartur hefur verið búsettur á Húsavík undanfarin ár. Þar gegndi hann m.a. stöðu framkvæmdastjóra Norðursiglingar hf., sem er leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu þ.e. hvalaskoðun, ofl., um nokkurra ára skeið. Áður en til þess kom starfaði Guðbjartur sem fjármálastjóri og staðgengill bæjarstjóra Norðurþings í tæpan áratug. Frá áramótum 2017-2018 hefur Guðbjartur starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

Guðbjartur hefur setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka m.a. má nefna:

Formaður stjórnar Sjóbaðanna á Húsavík, formaður stjórnar Northsailing Norway AS., formaður stjórnar Hvalasafnisins á Húsavík, formaður endurskoðunarnefndar Lífeyrirssjóðs starfsmanna Húsavíkurbæjar, stjórnarmaður í Dvalarheimili aldraðara sf. á Húsavík.

Guðbjartur hefur enn fremur sinnt félagsmálum og var til að mynda formaður knattspyrnudeildar Fram 2004 til 2006 og síðar formaður knattspyrnudeildar Völsungs á Húsavík 2006 til 2007.

Ráð er fyrir því gert að Guðbjartur hefji störf hjá félaginu frá og með næstu mánaðamótum og enn fremur að hann muni flytja til Vestmannaeyja með sinni fjölskyldu við fyrsta tækifæri.

Ráðningarfyrirtækið Capacent sá um ráðningarferlið og samskipti við umsækjendur. Starfið var auglýst laust til umsóknar þann 27. júlí sl. og lauk umsóknarfresti þann 10 ágúst sl.

F.h. stjórnar,

Lúðvík Bergvinsson, stj.form.