Á fundi bæjarráðs í gær voru samgöngumál til umræðu. „Samgöngumál eru eitt stærsta hagsmunamál Vestmannaeyinga. Með yfirtöku á rekstri Herjólfs, næstu tvö árin, er forræðið yfir helstu samgönguæð Vestmannaeyja við fastalandið í höndum íbúanna sjálfra. Bæjarráð harmar þá neikvæðu umræðu sem hefur að undanförnu komið fram í samfélaginu um Vestmannaeyjaferjuna Herjólf ohf. Ekki er að vænta annars en að jákvæð samfélagsleg áhrif þessa verkefnis verði gríðarleg fyrir fyrirtæki í Eyjum, ferðaþjónustuna sem og íbúa alla. Sömuleiðis er mikilvægt að sem breiðust samstaða ríki um verkefnið meðal bæjarbúa,“ segir í bókun.

„Bæjarráð Vestmannaeyja fagnar þeirri tillögu um siglingaáætlun sem stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. hefur sett fram og taka á gildi 30. mars nk. Áætlunin er mikið framfaraspor fyrir Vestmannaeyjar og þýðir í raun að þjóðvegurinn milli lands og Eyja verður opinn frá kl. 7 á morgnanna fram undir miðnætti alla daga, en aldrei áður hefur komið fram siglingaáætlun á leiðinni milli lands og Eyja sem býður upp á slíka þjónustu.“
Þetta var samþykkt af öllum fulltrúum bæjarráðs.

Lýsir yfir fullum stuðningi
Trausti Hjaltason lagði fram eftirfarandi bókun: Hvatt er til eindreginnar samstöðu Eyjamanna um það mikilvæga verkefni sem að yfirtaka á rekstri Herjólfs er og lýsir yfir fullum stuðningi við verkefnið. Þá er lýst yfir stuðningi við stjórn Herjólfs ohf. og þau mikilvægu störf sem að hún vinnur að við eflingu samgangna milli lands og Eyja.