Togarar hafa fiskað með góðum árangri á Austfjarðamiðum í haust. Gullver NS hefur að sjálfsögðu veitt á sínum hefðbundnu heimamiðum og Vestmannaey VE og Bergey VE hafa haldið sig fyrir austan en landað ýmist eystra eða í Vestmannaeyjum. Þá hafa togarar víðs vegar að stundað veiðar út af Austfjörðum og Suðausturlandi og hafa þeir landað afla sínum á Austfjarðahöfnum í ríkari mæli en oftast áður.

Gullver fór í fimm veiðiferðir í septembermánuði og var afli skipsins í þeim samtals 494 tonn. Í októbermánuði fór Gullver í sjö veiðiferðir og þá var aflinn 752 tonn af slægðum fiski. Þessi októbermánuður er besti aflamánuður í sögu skipsins en Gullver hefur verið gerður út frá Seyðisfirði frá því að hann kom þangað nýr árið 1983.

Bergey  fiskaði 410 tonn af slægðum fiski í septembermánuði og 450 tonn í október en afli Vestmannaeyjar var 360 tonn í september og 395 tonn í október. Í septembermánuði fóru bæði skipin í sex veiðiferðir en í október fór Bergey í átta og Vestmannaey í sjö.

Þórhallur Jónsson skipstjóri á Gullver segir að haustið hafi verið afar gott. „Aflinn hefur verið með albesta móti að undanförnu og hver veiðiferð hjá okkur hefur ekki tekið nema 2 ½ – 3 ½ sólarhring. Við höfum verið á okkar hefðbundnu miðum og veitt í Berufjarðarál, Hvalbakshalli, Litladýpi og á Fætinum. Síðan höfum við einnig farið norður á Glettinganesflak. Aflinn hefur verið blandaður en uppistaðan er þorskur og ufsi. Það sem er nýtt fyrir okkur er þessi togarafjöldi á miðunum hér eystra. Við höfum oft verið nánast einir á okkar hefðbundnu miðum en nú er fullt af togurum. Það hefur verið eitthvað tregara vesturfrá og þá koma þeir hingað. Við á Gullver erum afar sáttir við fiskiríið og vonandi helst það eitthvað áfram, en mér finnst heldur hafa dregið úr því upp á síðkastið,“ segir Þórhallur.

Jón Valgeirsson skipstjóri á Bergey tekur undir með Þórhalli og segir að aflinn hafi verið afar góður fyrir austan í haust. „Við erum vanir því að vera mikið fyrir austan á haustin og aflinn hefur verið með mesta móti í haust. Við erum mikið að veiða á Breiðdalsgrunni og Litladýpi en svo höfum við farið norður á Tangaflak og Glettinganesflak í þeim tilgangi að reyna við ýsu. Við leggjum mikla áherslu á ýsuveiði en staðreyndin er sú að það hefur oft gengið betur að ná henni en nú í haust. Hinsvegar er nóg af þorski og ufsa og fiskurinn hefur verið mjög góður. Við löndum ýmist fyrir austan eða í Eyjum. Þegar við löndum í Eyjum hefjum við nýja veiðiferð við Eyjarnar en á þessum árstíma fæst ekkert þar nema ufsi og karfi. Síðan er haldið austur og þá glæðist aflinn í öðrum tegundum. Það hefur verið óvenjumikil togaratraffík á Austfjarðamiðum í haust og athyglin hefur verið á þeim miðum,“ segir Jón.

Af vef Síldarvinnslunnar