Vald og ábyrgð

Íris Róbertsdóttir

Það er grunnregla í stjórnsýslu og stjórnskipan að aldrei má aðskilja vald og ábyrgð. Sá sem fer með endanlegt vald ber líka endanlega ábyrgð.

Í grein eftir bæjarfulltrúa sem birtist á netmiðlum síðasta föstudag var því haldið fram, að við bæjaryfirvöld sé að sakast um hvernig Vegagerðin stendur að dýpkun Landeyjahafnar. Ef þetta væri réttmæt ábending þá myndu nú heldur betur skipast veður í lofti. Þá væri samanlagt klúður Vegagerðarinnar í Landeyjahöfn – frá því að hún var opnuð fyrir 8 árum – allt á ábyrgð þeirra sem fóru fyrir bæjarstjórn á því árabili. Er réttmæt að skella skuldinni á það fólk? Nei, auðvitað ekki.

Vegagerðin verður ein og sjálf að bera ábyrgð á því sem hún gerir eða lætur ógert. Bæjarstjórn öll hefur þrýst eins mikið á Vegagerðina í þessum dýpkunarmálum eins og mögulegt er og ég þykist viss um að fyrri bæjarstjórn gerði það líka. Á fundum, með bréfum og símtölum höfum við síðustu vikur komið sjónarmiðum okkar eins kröftuglega á framfæri og kostur er og fengið til liðs við okkur í þeim efnum þingmenn kjördæmisins. Ekki síst höfum við með miklum þunga bent á reynslu Eyjamanna af þeim verktaka sem nú hefur verið samið við um dýpkun. Sá samningur tekur gildi 2019 og er til 3ja ára. Vegagerðinni var gert algjörlega ljóst að þessi framganga málsins var í fullkominni andstöðu við vilja og skoðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Við teljum að útboðið sjálft hafi verið meingallað og fráleitt að bæjaryfirvöld skyldu ekki hafa verið höfð með í ráðum þegar útboðsskilmálar voru ákveðnir. Úr því sem komið var vildum við að öllum tilboðum yrði hafnað og ráðist yrði í annað útboð á réttum forsendum. Við þessum óskum varð Vegagerðin ekki og hennar er valdið – og ábyrgðin.

Þess ber líka að geta að Vegagerðin var búin að fallast á mjög eindregna ósk okkar um að dýpka út nóvember – en ekkert varð af því eins og kunnugt er; Belgarnir farnir og Björgun gat ekki mannað dýpkunarskip.

Við munum sannarlega halda Vegagerðinni við efnið á næstunni eins og við framast getum og treystum á stuðning bæjarbúa í þeim efnum. Það hjálpar ekki í þeirri baráttu ef einstakir bæjarfulltrúar vilja létta ábyrgðinni af Vegagerðinni og færa hana yfir á bæjaryfirvöld. Þá er búið að aðskilja vald og ábyrgð – og engin verður fegnari en ”gerandinn” sem sé Vegagerðin.

Stöndum saman og vinnum saman.

Íris Róbertsdóttir
Bæjarstjóri Vestmannaeyja