Áhugaverðir punktar úr fjárhagsáætlun 2019

Trausti Hjaltason

Lækkun fasteignaskatts
Afar ánægjulegt er að tekist hafi að ná í gegn lækkun á fasteignaskatti. Við fyrri umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun var lögð fram tillaga af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að fasteignaskattur yrði lækkaður. Sú tillaga náði fram að ganga og hefur nú verið samþykkt.

Stækkun Hamarskóla
Aðrar tillögur Sjálfstæðisflokksins sem náðu fram að ganga og skipta verulegu máli var tillaga um að skoða fýsileika þess að stækka Hamarskólan. Einnig náðist í gegn að hækka aldursviðmið frístundastyrks úr 16 árum upp í 18 ár.

Niðurfelling fasteignaskatts
Sú tillaga sem var ekki tekið vel í var tillaga Sjálfstæðisflokksins um að halda áfram að fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri líkt og tíðkast hefur undanfarin ár. Það er miður að fulltrúar H-listans og E-listans hafi gefist upp í þeirri baráttu við ríkið, eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og E-lista höfðu staðið sameiginlega að þeirri ákvörðun undanfarin ár. Þessi niðurfelling kom sér afskaplega vel fyrir það fólk sem hefur byggt upp samfélagið og hefur orðið fyrir tekjumissi við starfslok.

Góður grunnur
Ábyrg fjármálastjórnun hefur verið aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og er að mati bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins án efa forsenda að framþróun og vexti samfélagsins. Skynsamar ákvarðanir m.a. við sölu á hlut bæjarins í HS, uppgreiðslu erlendra lána og sífelldu aðhaldi í rekstri hafa skapað forsendur til möguleika á bættri þjónustu, að draga úr álögum á íbúa og stofna til nýframkvæmda sem eru til þess fallnar að bæta aðstöðu og upplifun íbúa og gesta Vestmannaeyjabæjar.

Haldið áfram með fyrri verkefni
Þess vegna er ángæjulegt að flestar af þeim tillögum varðandi framkvæmdir næstu ára náðu fram að ganga í fjárhagsáætlun og er verið að klára og halda áfram með öll þau verkefni sem var búið að setja í gang. Til að nefna eitthvað þá er ég sérstaklega ánægður með að það á að fara í af myndugleika í miklar endurbætur á skólalóðunum eftir að vinnu lauk nýverið í samráði við skólstjórnendur um fyrirkomulagið á skólalóðunum. Einnig á að fara í framkvæmdir við búningsklefa í Týsheimilið sem mun stórbæta aðstöðu. Það hafa því verið forréttindi og eru forréttindi að sitja í bæjastórn sem hefur tækifæri til að framkvæma af slíkum myndugleika sem verið hefur og að það séu forsendur til að gera það áfram.

Trausti Hjaltason

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.