Um síðustu helgi 1.-2. mars  lauk seinni hluta Íslandsmóti skákfélaga í Rimaskóla í Reykjavík, en fyrri hlutinn fór fram í nóvember síðastliðnum.

Taflfélag Vestmannaeyja sendi tvær sex manna sveitir á mótið, aðra í 3ju deild en hina í fjórðu deild. Alls tóku 17 keppendur frá TV þátt í keppninni um helgina. Sveit TV endaði í öðru sæti af fjórtán sveitum í 3. deild og teflir því í 2. deild næsta haust.

Alls voru tefldar sjö umferðir og kom þessi góði árangur nokkuð á óvart, því eftir fyrri hlutann var sveit TV í 7. sæti.  Keppnin var mjög jöfn um 2. sætið og var sveit TV ½ vinningi fyrir ofan sveit Skagamanna þegar upp var staðið. Í fjórðu deild gekk sveit TV einnig vel og endaði í 5. sæti af 14.

Sveitir TV eru skipaðar félögum í TV, búsettum í Eyjum eða uppi á landi.  Á fyrsta tefldi Ægir Páll Friðbertsson og aðrir í liðinum voru,  Nökkvi Sverrisson, Sigurjón Þorkelsson, Sverrir Unnarsson, Kristófer Gautason, Lúðvík Bergvinsson,  Aron Ellert Þorsteinsson.  Alexander Gautason, Hallgrímur Steinsson, Arnar Sigurmundsson, Andri Hrólfsson, Ólafur Hermannsson, Páll J. Ammendrup, Páll Ammendrup Ólafsson, Bjartur Týr Ólafsson og Sindri Guðjónsson.  Tefldi hver um sig ýmist 1, 2 eða 3 skákir um helgina.
Liðstjórar voru Arnar Sigurmundsson í 3. deild og Ólafur Hermannsson í 4. deild. Að sögn Arnars  formanns TV,  gerir þessi góðu árangur enn ríkari kröfur til næsta keppnistímabils því sveitir í 2. deild á Íslandsmóti skákfélaga eru töluvert sterkari en í 3. deild.  Á sama hátt verður spennandi verkefni að koma sveit TV í fjórðu deild upp í þriðju deild að ári.