Lýðræði í sparifötum

Helga Kristín Kolbeins

Á hverjum degi er verið að taka ákvarðanir og þá skiptir máli hvaða forsendur liggja að baki og á hvaða grundvelli ákvarðanirnar eru teknar. Nú er meirihluti bæjarráðs búinn að taka ákvörðun um að hætta við endurbætur á Týsheimilinu, og fara í staðinn í framkvæmdir við stúkuna á Hásteinsvelli. Við stjórnun bæjarfélagsins höfum við nefndir sem eiga að fjalla um ákveðna málaflokka, taka ákvarðanir sem teknar eru fyrir hjá bæjarráði og bæjarstjórn. Nefndirnar gegna grundvallarhlutverki í stjórnsýslu sveitarfélagsins og í nefndir bæjarins veljast gjarnan einstaklingar sem hafa þekkingu og áhuga á þeim málefnum sem viðkomandi nefnd fjallar um. Nefndir ákvarða mál með rökræðu, samningum og stundum atkvæðagreiðslu. Með því að hafa nefndir starfandi að ákveðnum málaflokkum tryggjum við að fleiri skoðanir og sjónarmið fá að heyrast þegar kemur að ákvörðunartöku. Mikilvægasta nefndin í bæjarfélaginu er bæjarráðið, þar mega eingöngu kjörnir aðalmenn í bæjarstjórn sitja. Það merkir þó ekki að aðrar nefndir eigi ekki að fá tækifæri til að fjalla um málefni sem þær eru kjörnar til. Miklu frekar að er bæjarráði berst erindi sem snýr að málaflokki nefndar er eðlilegt að bæjaráð vísaði erindinu þangað og taki málið upp aftur er nefndin hefði fjallað um málið og skilað áliti sínu. Það að bæjarráð taki ákvörðun um mál og geri stefnubreytingar án umfjöllunar í fagnefnd finnst eflaust einhverjum vera þægileg leið til að komast hjá umræðu. En fleirum finnast slík vinnubrögð gerræðisleg og geta á engan hátt kallast lýðræðisleg. Slík vinnubrögð eru jafnframt ólíkleg til að tryggja jafnræði í meðferð á óskum íbúanna og jafnræði í framgang þeirra. Kannski eru til einstaklingar sem finnst fara best á að láta meirihluta bæjarráðs fara með allt ákvörðunarvald. En við búum í lýðræðissamfélagi og eigum við ekki að ræða málin fyrst áður en ákvarðanir eru teknar?

Hrópleg mótsögn á fundi bæjarráðs
Á fundi bæjarráðs 19. mars á þessu ári var samþykkt að taka þátt í íbúasamráðsverkefni. Í því felst að sjónarmið íbúa fái að komast að áður en ákvarðanir eru teknar. Á sama bæjarráðsfundi var ákveðin mikil stefnubreyting á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Eitt af kjörorðum H-lista fyrir kosningar var „aukið lýðræði“ en það eru greinilega aðeins orðin tóm. Í bæjarráði var tekin ákvörðun án umræðna í þeim nefndum er eiga að fjalla um málið áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Og þrátt fyrir að í breytingunni felist mögulega niðurrif húss, bygging annarra mannvirkja, auk breytinga á skipulagi. Það skýtur skökku við að taka slíkar ákvarðanir í einu af minnsta ráði bæjarins án þess að umræður fari fram í fagnefndum og ekkert íbúasamráð viðhaft. Þrátt fyrir að á sama fundi var verið að setja slíkt samráð í sparifötin af meirihlutanum. Það skiptir engu hvort okkur finnist málefnin sem verið er að taka ákvörðun um verðug eða ekki, við verðum að fylgja góðum stjórnsýsluháttum og lýðræðishefðum í verkum okkar og það hefur meirihlutinn alls ekki gert í þessu máli.

Helga Kristín Kolbeins
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins