Þegar gengið var til samninga um dýpkun í Landeyjahöfn síðasta haust kom bæjarstjórn Vestmannaeyja skýrum og afdráttarlausum mótmælum á framfæri við Vegagerðina. Raunar hafði bæjarstjórn einnig mótmælt því hvernig útboðinu sjálfu var háttað; vægi tilboðsupphæðar annars vegar og tæknilegrar getu hins vegar kom mörgum spánskt fyrir sjónir. En látum það liggja á milli hluta.

Eftir tæpt ár í bæjarstjórn tel ég mig hafa þokkalega þekkingu á dýpkunarmálum, líkt og svo ótrúlega margir bæjarbúar. Mín þekking er aðallega komin frá tveimur góðum mönnum; vélstjóra á Herjólfi og skipstjóra á Lóðsinum. Þegar fólk af fastalandinu spyr mig um það hvers vegna dýpkun sé svona erfið í Landeyjahöfn er svarið yfirleitt nokkurn vegin svona: Svokallaðir „gluggar“ opnast milli lægða þegar aldan gengur niður og þeir haldast opnir í nokkra daga í senn, allt eftir því hve náttúruöflin eru miskunarsöm. Í þessum gluggum snemma á vorin ríður á að dýpkunaraðilinn geti dýpkað gríðarlegt magn á mjög skömmum tíma, áður en glugginn lokast aftur.

Þetta vita Vestmannaeyingar betur en flestir aðrir.

Það má taka það fram hér að ég hef ákveðna samúð með forsvarsmönnum núverandi dýpkunaraðila; veðrið í vetur og í vor hefur verið verra heldur en á síðasta ári og ölduhæðin meiri. Til eru gögn sem staðfesta það. En einmitt þess vegna er það þeim mun mikilvægara að þegar færi gefst til dýpkunar verður að nýta tímann vel og dæla upp gríðarlegu magni á skömmum tíma.

Í þeim gluggum sem opnast hafa í vor hafa afköstin ekki verið ásættanleg og því er það þannig að í dag, 24. apríl, er höfnin enn lokuð. Eins óþolandi og það nú er. Og enn verra þykir manni að jafnvel þó að aðstæður leyfi með góðu móti dýpkun, þá liggur dýpkunarskipið bundið við bryggju og áhöfnin er hvergi nærri, líkt og raunin var um páskana. Það er með öllu ótækt.

En hvað er þá til ráða?

Haldinn var aukafundur í bæjarráði í gær þar sem skýrri kröfu Bæjarráðs var komið á framfæri við Vegamálastjóra; að tafarlaust verði leitað út fyrir landsteinana að dýpkunarskipi sem hafi burði til þess að dýpka í Landeyjahöfn og opna hana. Þannig þurfi að finna aðila sem getur sinnt verkinu þar sem ekki getur talist boðlegt að núverandi dýpkunaraðili hafi hvorki tækjakost né metnað til þess að sinna verkefninu. Þar að auki ber eiganda hafnarinnar að tryggja að slíkt fíaskó endurtaki sig aldrei aftur.

Á síðasta degi vetrar óska ég öllum Vestmannaeyingum gleðilegs sumars!

Njáll Ragnarsson

Formaður Bæjarráðs Vestmannaeyja.