Á öðrum degi Kvikmyndahátíðar, fimmtudeginum níunda maí er leitað enn aftar í tímann, til ársins 1627 þegar sýnd verður heimildarmynd um Tyrkjaránið. Myndin er um einn átakamesta og sérstæðasta atburð Vestmannaeyja og landsins alls. Að baki myndinni liggur margra ára heimildavinna og undirbúningur. Myndin er tekin á söguslóðum í Vestmannaeyjum og í tíu öðrum löndum til að lýsa atburðunum og eftirmálum þeirra frá sem flestum hliðum. Myndefni samtímans er notað í ríkulegum mæli til að segja söguna, einnig frásagnir, viðtöl og tölvugrafík.

1. Náðarkjör, rekur atburðarásina á Íslandi sumarið 1627, í Grindavík, á Bessastöðum, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. Heimamenn taka þátt í að segja söguna – Guðbergur Bergsson í Grindavík, austfirskir sagnamenn sem segja þjóðsögur, skólabörn í Vestmannaeyjum o.fl.

2. Morðengill, beinir athyglinni að ránsmönnunum og bakgrunni þeirra, einkum foringjanum sem var hollenskur að uppruna. Slóð hans er rakin í ýmsum löndum og spurt spurninga um sekt og sakleysi, trú og tíðaranda.

Höfundur og stjórnandi myndarinnar er Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur.

Kvikmyndatöku og klippingu annaðist Guðmundur Bjartmarsson. Framleiðandi Hjálmtýr Heiðdal og tónlistarumsjón Sverrir Guðjónsson.