Hvernig er hið fullkomna hlaup? Þessari spurningu verður auðvitað hver að svara fyrir sig, en fyrir mér er hið fullkomna hlaup hlaupið þar sem ég finn gleðina í sjálfum mér og fæ tækifæri til að deila henni með öðrum. Uppskriftin að hinu fullkomna hlaupi er annars nokkurn veginn þekkt, svona rétt eins og uppskriftin að köku sem hefur oft verið bökuð. En þó að öll innihaldsefni séu til staðar í réttum hlutföllum heppnast kakan ekki nema stundum. Það gerist bara á sérstökum dögum, þegar minnst varir, og enginn veit alveg hvers vegna. Þessir sérstöku dagar láta kannski lítið yfir sér að morgni, en þegar líður á daginn kemur í ljós að þeir flytja með sér þetta „eitthvað” sem enginn veit alveg hvað er. Og það er einmitt þetta „eitthvað” sem ræður úrslitum um það hvort kakan heppnast – eða hlaupið. Þetta „eitthvað” var til staðar í Vestmannaeyjum þegar Heimaeyjarhringurinn („The Puffin Run”) var hlaupinn þar laugardaginn 4. maí sl, segir Stefán Gíslason, hlaupafrömuður í pistli sínum á hlaup.is

Uppskriftin
Uppskriftin að fullkomnu hlaupi gæti verið einhvern veginn svona:

  • Vegalengd við hæfi sem flestra
  • Fjölbreytt hlaupaleið
  • Útsýni sem gleður augað
  • Gott veður
  • Gott skipulag
  • Góðir vinir
  • Maður sjálfur

Öll þessi innihaldsefni voru til staðar í Vestmannaeyjum um daginn.

Vegalengdin
Heimaeyjarhringurinn er 20 km, en það er vegalengd sem flest fullfrískt fólk getur vel lagt að baki á einum degi – og margir reyndar á miklu styttri tíma, t.d. 2-3 klst. Og til að gera þetta enn alþýðlegra gat fólk hjálpast að, annað hvort með því að vera tvö saman og hlaupa 10 km hvort eða fjögur saman með 5 km hvert.

Hlaupaleiðin og útsýnið
Hlaupaleiðin á fáa sína líka. Ferðalagið um Heimaeyjarhringinn hófst með fallbyssuskoti á Skansinum, þessum sögufræga stað þar sem varnarvirki var upphaflega reist árið 1586 og þar sem aðstandendur sjómanna biðu milli vonar og ótta eftir því að bátur kæmi eða kæmi ekki að landi. Frá Skansinum var hlaupið í gegnum neðsta hluta bæjarins, nánast á hafnarkantinum, og áfram undir Skiphellum inn í Herjólfsdal þar sem Eggjarnar gnæfa yfir á hægri hönd. Áfram var svo haldið suður með Hamrinum á vesturströnd Heimaeyjar og áfram hálfhring í kringum Stórhöfða og upp á hann að sunnanverðu. Þar tók malbikið við niður af höfðanum og svo upp langa aflíðandi brekku að flugvellinum. Frá flugvellinum lá svo leiðin niður grasi gróinn slóða að Eldfelli og áfram utan í hrauninu sem er svo nýlegt að ég var unglingur á Reykjaskóla þegar það rann. Síðasti spölurinn lá í krákustígum um úfið hraun þar til komið var niður í Skansfjöru skömmu áður en hringnum var lokað.

Á þessari hlaupaleið er í stuttu máli allt: Ótrúleg saga sem skrifaðist um aldir og skrifast enn, þéttbýli og malbik, stórskornir klettar sem eiga fáa sína líka, grösugur dalur, þægilegir göngustígar, sendin fjara sem reynir á þreytta fætur, brattar brekkur, návist lundans, ótrúlegt útsýni yfir eyjar og klettasker, vorlykt af hafi, fjara og sjófuglar á flugi. Í stuttu máli sýna náttúran og sagan á sér nýjar hliðar við hvert fótmál.

Veðrið
Einhver sagði mér að í Vestmannaeyjum væri sjaldan logn. Laugardaginn 4. maí sl. gerðist það samt – og svo skein sólin á þetta allt saman. Í svona veðri fá bæði fjöll og fólk úthlutað örlítið meiri fegurð en aðra daga. Og þá skiptir hitastigið ekki lengur máli.

Skipulagið
Skipulagið á Heimaeyjarhringnum var að flestu leyti óaðfinnanlegt. Allt var á sínum stað við upphaf og lok hlaupsins, leiðin vel merkt, brautarvarslan snurðulaus og upplýsingar skilmerkilegar. En hið opinbera og formlega skipulag er ekki eina skipulagið í svona hlaupi. Andrúmsloftið sem skapaðist í kringum hlaupið, óopinberlega og óformlega, átti ekki síður þátt í að gera þennan dag eins góðan og hann var. Gleðin í bænum átti stóran þátt í því. Það var bara eins og allir væru í góðu skapi, ekki bara starfsfólkið sem tók einstaklega vel á móti manni bæði í skráningartjaldinu, í markinu og úti á hlaupaleiðinni, heldur líka fólkið á kaffihúsinu, veitingastaðnum, hótelinu og úti á götu. Sennilega er þetta óskipulagða en samt svo fullkomna andrúmsloft stór hluti af þessu „einhverju” sem er ómissandi hluti af uppskriftinni án þess að vera skrifað inn í hana.

Vinirnir
Í þessu hlaupi hitti ég nokkra af bestu hlaupavinum mínum og það var mikilvægur hluti af upplifuninni. Það er gaman að eiga sæluna einn en samt miklu meira gaman að eiga hana með öðrum sem skilja nákvæmlega um hvað málið snýst. Og svo tók konan mín á móti mér þegar ég kom ringlaður af gleði í mark. Þegar fjölskyldan styður mann verður allt betra, bæði í hlaupum og í öðrum viðfangsefnum lífsins.

Niðurstaðan
Uppskriftin að Heimaeyjarhringnum 4. maí sl. var rétta uppskriftin, ekki bara vegna þess sem stóð í henni, heldur líka vegna þessa „einhvers” sem var á heimavelli í Vestmannaeyjum þennan dag.