ÍBV mætti KR í Meistaravöllum í leik í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar í gærkvöldi.

KR byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu eftir aðeins 14. mínútna leik. Á 37. mínútu fékk leikmaður KR, Laufey Björnsdóttir sitt annað gula spjald og því rautt eftir klaufaleg brot. Þrátt fyrir að vera einni færri á vellinum bættu heimamenn við marki á lokamínútu hálfleiksins. Staðan því 2-0 í hálfleik.

Eyjastúlkur mættu mun betur stemmdar inn í síðari hálfleikinn og pressuðu stíft enda manni fleiri. Þær áttu nokkur skot í slá og bjargaði KR á línu í eitt skiptið. Það var hinsvegar ekki fyrr en á 78. mínútu að Cloé Lacasse minnkaði muninn fyrir ÍBV.

ÍBV gaf allt í lokasprettinn til þess að freista þess að jafna. Þrátt fyrir mikla pressu fór boltinn ekki inn og lokatölur því KR 2, ÍBV 1.

Stelpurnar sitja því í sjöunda sæti með þrjú stig að loknum fjórum umferðum. Næsti leikur ÍBV er gegn Stjörnunni á Hásteinsvelli á mánudaginn 27. maí kl. 18.00