Á þessari veglegu hátíð rekur hver stórviðburðurinn annan, enda ærið tilefni til. Hátíðin hefst föstudaginn 5. júlí 2019 með setningu og afmælisávarpi á Skanssvæðinu. Vestmannaeyjabær býður svo á tvenna stórtónleika í Íþróttamiðstöðinni þar sem fram koma margir af vinsælustu tónlistarmönnum landsins, s.s. Björgvin Halldórsson, Ragnhildur Gísladóttir, Júníus Meyvant, Silja Elsabet, Sverrir Bergman, Halldór Gunnar Pálsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara undir stjórn Jóns Ólafssonar. Goslokalagið 2019 verður flutt. Auk þess kemur strengjasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands fram á tónleikunum, sem og Karlakór Vestmannaeyja og Lúðrasveit Vestmannaeyja.

Landsbankinn og Ísfélag Vestmannaeyja bjóða upp á fjölbreytta barna- og fjölskylduskemmtun í miðbænum í anda fyrri ára. Fyrir unglinga verður m.a. boðið í sundlaugapartý með Ingó veðurguð og til Pop-quiz keppni á föstudagskvöldinu.

Á laugardagskvöldinu verður öllu tjaldað til og stefnt að því að hefja kvöldið af krafti fyrr en oft áður. Þetta er kvöld okkar ástsælu Eyjatónlistarmanna. Meðal þeirra sem fram koma eru; Eymannafélagið, Leó Snær Sveinsson, Captin Morgan og Brimnes. Byrjað verður að syngja og spila í Skvísusundi með einskonar afturkalli til fortíðar og þegar líður að miðnætti hefst dansleikur og króarráp á Skipasandi.

Að vanda verða svo opnar listasýningar um allan bæ frá fimmtudegi til sunnudags. Þar sýna þau Hulda Hákon og Jón Óskar, Sigurfinnur Sigurfinsson (teiknikennari), Svabbi Steingríms., Gíslína o.fl. verk fyrir alla listunnara og aðra áhugasama. Opið hús og garður í Hippakoti og listasmiðju Arnórs og Helgu.

Hvetjum alla sem völ hafa á til að taka helgina frá og fagna með okkur.

Þeir sem hafa áhuga á að koma á framfæri sýningum eða viðburðum í tengslum við helgina er bent á að hafa samband við Kristínu Jóhannsdóttur á netfangið [email protected]

Nánari dagskrá og tímasetning viðburða verður send þegar nær dregur hátíðinni.
Goslokanefnd
100 ára afmælisnefnd