Sjaldan fellur eggið langt frá hænunni

Grímur Gíslason

Það er þekkt að gamalgrónir málshættir og orðtök vilja stundum skolast til af ýmsum ástæðum og jafnvel skrumskælast. Stundum skrensar fólk aðeins á tungunni en einnig er það þekkt að sumir gera út á það að afbaka málshætti á einhvern hátt. Þannig er það eflaust með hið gróna orðtak um eplið og eikina sem stundur verður í dag um eggið og hænuna.

Ofangreint kom mér í hug þegar að ég las grein Halldórs Bjarnasonar, talsmanns bæjarfulltrúa H-listans, sem skrensaði talsvert á svelli sannleikans eða skrumskældi hann viljandi, þegar að hann svaraði umfjöllun minni um framgöngu meirihluta bæjarstjórnar varðandi stjórn Herjólfs ohf.

Það er kannski smá útúrdúr að fara í það að bregðast við því sem að Halldór setur fram, því það er varla svara vert og svör við mörgu munu koma fram síðar, í frekari umfjöllun minni um þetta mál eins og boðað var. Það er samt þannig að, talsmaður H-listans, setur fram slíka afbökun á sannleikanum að nauðsynlegt er að gera athugasemd við það.

Mikill misskilningur að halda að ég sé reiður
Svona aðeins í framhjáhlaupi þá er rétt að leiðrétta þann leiða misskilning sem fram kom hjá Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra að ég sé reiður, en hún lét hafa eftir sér í fjölmiðli að henni finnist; „sérkennilegt að Grímur skuli vera svona reiður að fá ekki að sitja í stjórn Herjólfs“!

Ég hef ekki orðið reiður í eina einustu stundu vegna þess að ég var ekki endurkjörinn í stjórn Herjólfs ohf. Ég verð reyndar afar sjaldan reiður. Hef lært að það hefur lítinn tilgang og skilar yfirleitt litlu og það hvarflar ekki að mér að reiðast yfir jafn smáum hlutum og því hvort að ég er kjörinn í stjórn ohf eða ekki. Það er svo margt sem að skiptir miklu meira máli í lífi mínu en það.

Seta í stjórn Herjólfs ohf var hvorki upphaf né endir lífs hjá mér og ég hef klárlega nægum verkefnum að sinna. Ég er því bara glaður og kátur og í fullkomnu jafnvægi. Aftur á móti hef ég ákveðnar skoðanir á framkomu, framgöngu, orðum og efndum forystufólks meirihluta bæjarstjórnar í málefnum Herjólfs ohf og tel nauðsynlegt að fjalla um það. Það er allt annað en reiði.

Það væri kannski ágætt fyrir fleiri að reyna að hafa hemil á reiði sinni því að það er yfirleitt ekki vænlegt til árangur til lengri tíma að hvæsa alltaf á fólk í reiði og frekju ef að maður er ekki sáttur. Hárblásaraaðferðin missir yfirleitt marks með tímanum.

En nóg um það í bili, því að öðru því sem að bæjarstjórinn lét hafa eftir sér verður svarað í samhengi við nánari umfjöllun um málið síðar.

Vísvitandi rangfærslur
Talsmaður H-listans, veit það auðvitað best sjálfur að hann er, vísvitandi,  sumsstaðar eða kannski réttar sagt víðast hvar, í umfjöllun sinni,  að setja fram algjörar rangfærslur. Kannski gerir hann það vegna þess að hann veit að ég er bundinn trúnaði varðandi ýmislegt sem snýr að persónum og leikendum í umfjöllun hans og þann trúnað vil ég síður rjúfa. Jafnvel ekki þó að slíkt kæmi sér albest fyrir mig. Ég hef ekkert að fela í þessum efnum og get lagt öll spil á borðið kinnroðalaust ef nauðsyn krefur.

Varamaðurinn sem sagði sig úr stjórn án þess að sitja fund
Það er rétt hjá talsmanninum að hann var kosinn varamaður í stjórn Herjólfs ohf í ágúst á síðasta ári en rúmum tveimur mánuðum síðar, áður en að hann hafði náð því að sitja svo mikið sem einn fund, var hann búin að segja sig úr stjórninni. Mig minnir að það hafi hann gert, að hans sögn,  vegna samstarfsörðugleika við stjórnarmenn, sem að hann hafði þó fram að þeim tíma ekkert starfað með.  Vægast sagt undarleg og reyndar óskiljanleg uppákoma þessar úrsagnir sem áttu sér stað.

Eru varamenn ekki til vara?
Í grein sinni fjalla talsmaður H-listans um að búið hafi verið að leggja upp með það að varamenn sætu alla fundi stjórnar.

Ég veit ekki hverjir lögðu upp með það og enginn lagði það sérstaklega upp við mig. Ég minnist þess ekki að neitt sé í samþykktum félagsins um að varamenn eigi að sitja fundi stjórnar, ef aðalmenn eru til staðar, og það er langt í frá að vera regla í hlutafélögum að svo sé enda er spuningin hvort að tilgangur varamanna er ekki sá að vera varamenn aðalmanna ef að þeir forfallast. Nafngiftin varamaður gefur það amk til kynna.

Ekki sitja varamenn í bæjarstjórn, bæjarráði eða nefndum bæjarins neina fundi ef aðalmenn eru til staðar. Þeir eru kallaðir til ef að aðalmenn forfallast eins og eðlilegt er. Þess vegna er vert að spyrja sig að því hverjir lögðu upp með það sem að talsmaðurinn talar um? Ég minnist þess ekki að stjórn Herjólfs ohf hafi lagt upp með það en slík ákvörðun hlýtur að vera hennar ef að hún telur hag af því að boða varamenn til allra funda. Varamenn geta bara ekki gefið einstökum stjórnarmönnum einhver fyrirmæli um slíkt. Amk ekki í eðlilegum hlutafélögum þar sem farið er að samþykktum hlutafélagsins.

Það er líka merkilegt að sjá minnst á þetta því aðra stundina er vitnað í samþykktir Herjólfs ohf og lagt upp með að þeim verði að fylgja, jafnvel þó að túlkun viðkomandi á samþykktunum sé afar undarleg og skrýtin, en hina stundina er ekkert lagt upp úr samþykktunum og sjálfsagt að fjölga í stjórninni þó að samþykktir geri ekki ráð fyrir slíku.

Illa skrikað á svelli sannleikans!
Þegar talsmaður H-listans, gerir mannaráðningar að umfjöllunarefni skrikar honum hvað mest fótur á svelli sannleikans. Ekkert var óljóst fyrir honum í þeim efnum. Hann veit það vel að allar ákvarðanir voru byggðar á niðurstöðum ráðgjafafyrirtækis. Hann veit það vel vegna þess að ég fór með honum í gegnum þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun þeirri, sem að hann gerir að umfjöllunarefni. Hann veit líka að bæði ég og hann erum bundnir trúnaði um þessar upplýsingar og hann veit líka vel að trúnaður og traust skiptir máli við ráðningar starfsfólks. Hann verður svo að meta það hvort að hann vill taka þessa umræðu lengra.

Hann veit allt um staðreyndir en kýs að bulla, óbyrgt, sem er engum nema honum sjálfum til vansa. Faglegheitin, sem honum og þeim sem að hann er málsvari fyrir var svo annt um fyrir kosningar, voru nefnilega leiðarljósið í öllu ráðningarferli sem að stjórn Herjólfs ohf kom að. Niðurstaðan úr því var bara ekki sú sem að hentaði pólitík talsmannsins og félaga og þá virtust faglegheitin ekki lengur skipta máli. Orð og efndir ekki í takt, því miður.

Enn er sullað í svaðinu
Talsmaðurinn kýs að feta þá braut sem félagar hans í H-listanum hafa áður gert, að ráðast að Lúðvík Bergvinssyni og hans fyrirtæki. Fyrirtæki með starfsemi í Eyjum þar sem háskólamenntun er nýtt í starfi en því miður er alltof lítið um atvinnutækifæri fyrir slíkt fólk í Eyjum. Það á að vera fagnaðarefni þegar að fyrirtæki sem kalla á háskólamenntaða starfsmenn reyna að halda úti starfsemi hér og því er dapurt að sjá talsmann forystufólks í bæjarmálum ráðasta að slíku fyrirtæki.

Það er því hálf sorglegt að sjá talsmann H-listans tala á þann hátt sem hann gerir, því að hann á að vita betur. Fyrrverandi bæjarstjórn fékk fyrirtæki Lúðvíks til vinnu við undirbúning að samningum við ríkisvaldið um yfirtöku á rekstrinum og síðan við stofnun fyrirtækisins. Þar lágu því upplýsingar og þekking starfsmanna sem stjórn Herjólfs ohf samþykkti samhljóða að nýta við afmörkuð verkefni sem ljúka þurfti, vegna óvæntra aðstæðna sem upp komu. Það er nú allt og sumt og fullkomnlega eðlilegt. Það veit talsmaður H-listans og hans fólk vel enda margbúið að fara yfir það mál. Það bara hentar málflutningnum betur að halda áfram að sulla í svaðinu og tala á þann hátt sem hann, gerir.

Hvort kom á undan, eggið eða hænan?
Öll grein, talsmanns H-listans,  er full af rugli og rangfærslum sem að ekki eru sérstaklega svaraverðar að öðru leiti en hér hefur verið gert en kannski kemur eitthvað fram í frekari umfjöllun um málefni Herjólfs ohf og vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar, sem varpar betra ljósi á bullið í honum.

Eftir lesturinn á grein talsmanns H-listans, þar sem flestu er snúið á haus eða jafnvel í hringi, verður manni eiginlega hálf bumbult og einhvernveginn leitar sú spurning á mann hvernig á því stendur að skrökið getur einhvernveginn orðið að sannleika í huga fólks, jafnvel þó að það viti hver raunverulegur sannleikur er. Það er því ekki óeðlilegt að velta fyrir sér þegar komið er á þann stað hvort hafi eiginlega komið á undan, eggið eða hænan.

Grímur Gíslason