Systurnar Litla hvít og Litla grá hafa aðlagast vel í nýjum heimkynnum og segja umönnunaraðilar þær nú tilbúnar til þess að láta sjá sig. Ákveðið var að opna fyrir gluggan að landlauginni sem systurnar dvelja í fyrir gesti til þess að sjá nýjustu íbúa Vestmannaeyja. Heimsóknirnar verða vel vaktaðar af starfsmönnum Sea life trust svo það sé ekkert sem trufli systurnar í sínum daglegu athöfnum. Í gær komu um 180 manns að heimsækja systurnar seinnipartinn.

Starfsfólk Sea life trust vill minna á að það er opið alla virka daga frá 10-17 í gestastofunni og er hægt að sjá systurnar frá klukkan 12. En ákveðið var að hafa opið aukalega milli 17 og 18 þessa vikuna þar sem Vestmannaeyingar með árskort í Sea life trust geta nýtt sér þann tíma líka. Gestir þurfa að athuga það að systurnar eru ekki sýningardýr heldur er þetta umönnunarlaug og velferð systrana er alltaf í forgangi. Ekki er í boði að taka myndir eða myndbönd í gestastofunni.