Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs í síðustu viku var umræða um skipurit Vestmannaeyjahafnar og hvort ástæða sé til breytinga á því vegna breytinga á starfsemi hafnarinnar. Ráðið samþykkti að skipa starfshóp sem ætlað er að meta kosti þess og galla að ráðið sé í stöðu hafnarstjóra.

Málið var tekið upp í bæjarstjórn í síðustu viku þar sem meirihluti bæjarstjórnar tók undir þá niðustöðu framkvæmda- og hafnaráðs um skipan starfshóps til að meta kosti þess og galla að tekið verði upp staða hafnarstjóra á ný. 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu hinsvegar athugasemdir við að stofnaður sé starfshópur um umrætt mál þegar vilji meirihluta bæjarstjórnar, með nokkuð ítarlegum útfærslum á framkvæmdinni og með einhvers konar rökstuðningi, hefur nú þegar verið opinberaður í málgagni H-listans. Umræddur starfshópur mun því eiga nokkuð erfitt að starfa á hlutlausum grundvelli. Engar formlegar kvartanir hafa borist vegna þess að ekki sé til staðar hafnarstjóri í sveitarfélaginu og því erfitt að sjá hvaða ástæður liggja að baki því að það sé nú til skoðunar að endurvekja stöðugildið á sama tíma og tilhneiging er hjá öðrum sveitarfélögum, t.d. nýverið hjá Fjarðarbyggðarhöfn sem er næst stærsta höfn landsins að leggja niður embættið, segir í bókun þeirra.

Í starfshópnum verða Kristín Hartmannsdóttir, Stefán Ó Jónasson og Sigursveinn Þórðarson. Stefnt er að því að hópurinn skili áliti í september.