Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað vel það sem af er sumri að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra Bergs-Hugins, dótturfélags Síldarvinnslunnar. Sérstaklega mun ýsuveiði hafa verið góð hjá skipunum. Arnar segir að stundum hafi veiðiferðirnar verið afar stuttar. „Nefna má að bæði skipin fóru út sl. fimmtudagskvöld og voru komin til löndunar fyrir hádegi á laugardag með fullfermi. Fullfermi hjá þessum skipum er tæp 70 tonn og þarna komu þau með blandaðan afla. Að lokinni löndun fóru þau síðan út á sunnudag og komu að landi í dag með fullfermi og nú er aflinn fyrst og fremst ufsi, karfi og ýsa. Almennt má segja að fiskiríið hafi verið gott í sumar og engin ástæða til að kvarta undan því,“ segir Arnar.

Það eina sem skyggir á góð aflabrögð að mati Arnars er verðþróun á mörkuðum. Hann segir að verð á ýsu hafi verið lágt ekki síst vegna mikils framboðs og svo sé ekki óalgengt að fiskverð lækki heldur yfir sumartímann. „Nú er hitabylgja í Evrópu og þá borða menn ekki mikinn fisk. Í slíku veðri grillar fólk og fiskneysla dettur niður,“ segir Arnar.

Síldarvinnslan greindi frá.