Náttúruspjöll ISAVIA á Heimakletti

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær var mikil umræða um framgöngu ISAVIA vegna orkumála á Heimakletti en tryggja þarf flugljósi á toppi Heimakletts rafmagn fyrir öruggar flugsamgöngur þar sem upp hefur komið ólagfæranleg bilun í rafmagnskapli sem liggur að ljósinu.

Telja lagningu nýs rafmagnskapals of kostnaðarsama

Fulltrúar ISAVIA vilja reisa byggingu fyrir sólarorkustöð á toppi klettsins þar sem þeir telja lagningu nýs rafmagnskapals of kostnaðarsama. Til glöggvunar þá myndi slík framkvæmd líklega kosta á bilinu 12-20 milljónir en hugsanlega minna þar sem umhverfis- og skipulagsráð hefur gert ISAVIA að fjarlægja gamla rafmagnskapalinn sem er fyrir og því hefði verið upplagt að nýta tækifærið og leggja þá bara nýjan í sömu andrá. Í því samhengi má geta þess að á síðasta ári var hagnaður ISAVIA 4,2 milljarðar.

Vilja reisa byggingu á Heimakletti

ISAVIA vill því reisa sólarorkustöð á toppi Heimakletts og vill nýta til þess stöð sem þeir eiga fyrir og steypa þarf niður á Klettinn og að öllum líkindum bolta í bergið. Umhverfis- og skipulagsráð hafði samhljóða heimilað staðsetningu fyrir bygginguna í hvarfi með engum sjónrænum áhrifum frá bænum. Sú staðsetning hugnaðist ekki ISAVIA og nù hefur meirihluti bæjarstjórnar heimilað bygginguna á meira áberandi stað á toppi Heimakletts.

Mikið jarðrask á toppi Heimakletts í leyfisleysi í tvígang

Nú þegar hafa í tvígang verið grafnir upp stórir flekar á toppi Heimakletts í leyfisleysi og ISAVIA gert af hálfu umhverfis- og skipulagsráðs að fylla upp í þau svöðusár sem grafin hafa verið í þetta fallega kennileiti og náttúruperlu Vestmannaeyja. Slík framganga er til háborinnar skammar og lýsir fullkomnu virðingarleysi fyrir náttúru Vestmannaeyja og ekki til þess fallið að vekja traust a.m.k. undirritaðrar til þeirra framkvæmda sem eru fyrirliggjandi vegna verkefnisins.

Tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafnað

Á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins það til við bæjarstjórn að ISAVIA yrði gert að leggja rafmagnskapal þar sem upprunalega samþykkt staðsetning hugnaðist þeim ekki lengur. Sú tillaga var felld af meirihluta bæjarstjórnar sem ætlar að beygja sig undir yfirgang ISAVIA.

Flugöryggi ekki ógnað

Því hefur verið haldið fram að töf á málinu sem er fyrst og fremst tilkomin af aðgerðarleysi af hálfu ISAVIA sé ógn við flugöryggi þar sem nauðsynlegt er að tryggja flugljósum á Heimakletti raforku. Reglulega er farið með útskiptanlegar rafhlöður sem tímabundna lausn og hefur verið gert frá því að bilunin í eldri rafmagnskapli kom fyrst upp. Slíkri ráðstöfun er hægt að halda áfram þar til varanleg lausn á málinu finnst.

Skora á ISAVIA að bregðast við sem fyrst með virðingu við náttúruna að leiðarljósi

Undirrituð vill skora á ISAVIA að aðhafast sem allra fyrst í þessu máli, sú framkvæmd verði með minnsta mögulega sjónræna inngripi, þ.e. lagningu rafmagnskapals og þá af fullri virðingu við náttúruna ólíkt þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið hingað til og gæti þannig orðið félaginu til sóma.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Myndir: Svavar Steingrímsson