Nú er komið að sjöttu sýningunni í sýningaröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt og nú geysast fram á völlinn þeir Pétur Steingrímsson og Guðmundur Gíslason. Báðir hafa þeir tekið myndir lengi og fáum við að sjá árangurinn í Einarsstofu klukkan 13.00 á laugardaginn.

Pétur man fyrst eftir sér með myndavél í Douglas Dakota flugvél, Þristi eins og þær voru kallaðar í íþróttaferðalagi með Þór. Við hlið hans vélinni sat enginn annar en Valli Snæ einn harðasti Þórari allra tíma. Hann tók myndir í fluginu og svo af félögunum eftir að lent var á Skógarsandi.

„Framan af tók ég ekki mikið af myndum en ég var eitthvað að mynda þegar ég var á Kristbjörgu VE. Það er svo ekki fyrr en fer að fjölga í fjölskyldunni sem þetta tekur kipp hjá mér,“ segir Pétur sem hefur sótt í sig veðrið með hverju árinu. Fáir hafa tekið fleiri myndir á Heimakletti og af þeim sem þar líta reglulega við.

„Þetta breyttist með stafrænu byltingunni. Ég á litla myndavél sem ég nota mikið og eftir að ég fékk Samsungsímann getur maður nýtt hvert tækifæri sem gefst til að mynda. Ég sýni sitt lítið af hverju á laugardaginn. Myndir af Heimakletti og myndir sem teknar eru á Heimakletti og fólki sem maður hittir þar. Þokumyndir og ekki má gleyma rollunum sem alltaf gleðja augað.“

Guðmundur byrjaði að mynda á árunum 1983 til 1984 en eins og fleiri var það ekki fyrr en með stafrænu byltingunni að hann tók við sér. „Þetta var ekkert af viti fyrr en ég fékk fyrstu stafrænu vélina í kringum 2000.  Ég fór svo á fullt þegar yngsta dóttirin var í fótboltanum. Tók myndir af liðinu í leikjum og er það safn orðið mjög stórt. Ég sýni íþróttamyndir, landslag og svo myndir af fólki sem maður hefur rekist á. Má segja að sýningin á laugardaginn sé þverskurður af því sem ég hef verið að mynda í gegnum árin,“ sagði Guðmundur.

Það er því enn og aftur von á skemmtilegri sýningu þar sem ljósmyndarar í bænum deila með okkur því sem þeir sjá í gegnum ljósopið sitt.

Eins og áður hefur komið fram er sýningin kl. 13.00 í Einarsstofu á laugardaginn.