Vinnslustöðin er nr. 46 og Hafnareyri nr. 485 á lista alls 883 fyrirtækja sem Creditinfo telur framúrskarandi í ár. Þórdís Úlfarsdóttir, útibússtjóri Íslandsbanka í Eyjum, afhenti dýrindis kökur heiðrinum til staðfestingar í gær!

Fyrirtækjalistinn var birtur fyrir helgi og eins og nærri má geta standast mun færri en vildu kröfur sem gerðar eru til sæmdarheitisins framúrskarandi fyrirtæki 2019.

Einungis 2% allra íslenskra fyrirtækja teljast framúrskarandi.

Fyrirtækjunum er skipt í þrjá flokka:

  • Lítil (eignir 0-200 milljónir króna)
  • Meðalstór (eignir 200-1.000 milljónir króna)
  • Stór (eignir 1.000 milljónir eða meira.

Vinnslustöðin og Hafnareyri eru í flokki stóru fyrirtækjanna.

Þetta snýst í raun um stöðugleika en ekki að ná góðum árangri í eitt og eitt ár. Stöðugur og góður árangur ár eftir ár telst framúrskarandi. Detti fyrirtæki út af listanum þarf það framúrskarandi rekstrarárangur þrjú næstu ár til að komast inn á listann á nýjan leik.

Standast þarf eftirfarandi kröfur til að teljast framúrskarandi 2019:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1, 2 eða 3
  • Jákvæð rekstrarniðurstaða 2016-2018
  • Eiginfjárhlutfall að minnsta kosti 20% 2016-2018
  • Framkvæmdastjóri skráður hjá ríkisskattstjóra
  • Fyrirtækið virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Ársreikningi skilað til ríkisskattstjóra 2016-2018
  • Ársreikningi 2018 skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður 2016-2018
  • Rekstrartekjur að minnsta kosti 50 milljónir króna 2017 og 2018
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna 2017 og 2018 og minnst 90 milljónir króna 2016