Bæjarfulltrúar meirihlutans og minnihlutans í bæjarstjórn Vestmannaeyja tókust á um það á síðasta fundi bæjarstjórnar um hvert bæjarfulltrúar eigi að beina spurningum sínum um málefni bæjarins.

Þetta gerðist í umræðu um fundargerð bæjarráðs frá því í síðasta mánuði. Þar hafði bæjarstjóri vakið athygli á því að samkvæmt bæjarmálasamþykkt ættu bæjarfulltrúar að beina fyrirspurnum um málefni til bæjarstjóra. Þetta sættu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sig ekki við.

„Bæjarfulltrúar hafa í gegnum tíðina ávallt getað leitað beint til starfsmanna bæjarins án aðkomu bæjarstjóra. Að allar fyrirspurnir bæjarfulltrúa þurfi að fara í gegnum bæjarstjóra lengir boðleiðir og elur á tortryggni,“ bókuðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Þeir sögðu jafnframt að þeir ætli áfram að leita beint til starfsmanna eftir svörum við daglegum spurningum svo þeir geti sinnt störfum sínum.

Bæjarfulltrúar Eyjalistans og Fyrir Heimaey sem mynda meirihluta bókuðu á móti. Þeir sögðu mikilvægt að hafa gott upplýsingaflæði og fylgja bæjarmálasamþykkt þar sem kveðið sé á um aðgang bæjarfulltrúa að gögnum og að óskum um slíkt skuli beint til bæjarstjóra.

Að lokum var þessi liður fundargerðarinnar samþykktur með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðismanna. Einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat þó hjá við atkvæðagreiðsluna.

ruv.is greindi f