Skip Bergs-Hugins, Vestmannaey og Smáey, hafa verið að fá reitingsafla að undanförnu. Smáey hefur verið að veiða austur af landinu en Vestmannaey hefur fiskað fyrir sunnan. Heimasíðan ræddi við skipstjórana. Jón Valgeirsson á Smáey og Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey í gær. Þegar rætt var við Jón var Smáey að færa sig frá Glettinganesflaki og á Gerpisgrunn. „Við erum að kasta núna hérna á Gerpisgrunni, en það hefur verið þorsk- og ýsurjátl hérna fyrir austan. Það má segja að aflinn hafi verið sæmilegur, eða tonn á tímann eða svo. Þetta er blandaður fiskur. Stóri þorskurinn lætur lítið sjá sig núna og spurningin er hvar hann heldur sig. Svona er þetta stundum. Við höfum landað hér fyrir austan. Lönduðum í Neskaupstað sl. fimmtudag og síðan á Seyðisfirði á mánudag. Við gerum ráð fyrir að landa í Neskaupstað að loknum þessum túr,“ segir Jón.
Birgir þór Sverrisson á Vestmannaey sagði að afla hefði verið landað í Vestmannaeyjum sl. fimmtudag og síðan haldið til veiða á sunnudag. „Við erum í karfa og ufsa í Reynisdýpinu og það má segja að sé reitingsveiði. Við gerum ráð fyrir að landa í Eyjum á fimmtudag,“ segir Birgir.