Meðlimir í Kiwanisklúbbnum Helgafelli afhentu í dag 600 endurskinsborða til nemenda við Grunnskólann í Vestmannaeyjum, um er að ræða nemendur frá Víkinni og upp úr ásamt kennurum. Þetta er í fyrsta skipti sem Kiwanismenn afhenda borða en þeir eru fastagestir í grunnskólanum á vorin þegar þeir afhenda nemendum í fyrsta bekk reiðhjólahjálma. „Þessi hugmynd kom upp í haust og við ákváðum bara að slá til, við ætluðum að vera fyrr á ferðinni með þetta en pöntunin dróst hjá okkur,“ sagði Sigvarð Hammer formaður Helgafells í samtali við Eyjafréttir. Sigvarð sagði ekkert ákveðið hvort þetta yrði endurtekið en hann reiknaði alveg eins með að það yrði gert innan nokkurra ára.

Af öðrum fréttum af Kiwanis sagði Sigvarð að árleg sælgætissala hafi gegnið vel og þakkaði bæjarbúum góðar móttökur.