Er þessi fjölmiðill hlutlaus?

Gísli Stefánsson skrifar

Gísli Stefánsson

Fjölmiðlar hafa fjórða valdið eins og það er kallað. Vald til að halda aftur af valdaöflum og stjórnvöldum með frjálsri og opinni fjölmiðlun. Frjáls og opin fjölmiðlun er þó ekki samnefnari yfir hlutlausa fjölmiðlun.

Ræturnar
Fjölmiðlun á Íslandi á sér mjög sterkar rætur í útgáfu flokksblaða sem er eins langt frá hlutlausri fjölmiðlun og mögulegt er. Þessu hefur verið reynt að breyta af ýmsum ástæðum frá því á seinni hluta 20. aldar og hefur það að mínu viti ekki tekist enda nær ómögulegt.

Draumsýn
Hlutlaus fjölmiðlun er draumsýn í mínum huga því á bakvið hvern fjölmiðil er lifandi og hugsandi fólk. Ekkert af þessu fólki ætti heima á miðlunum nema það hefði skoðanir á samfélaginu og hefði áhuga á að fjalla um mál líðandi stundar. Skoðanir þeirra eru svo litaðar af umhverfi og samfélagi hvers og eins líkt og allra annara.

Þetta er list
Fjölmiðlun er þvi í mínum huga eins og list. Við horfum á aðferðafræði og stíl fjölmiðlamanna og ákveðum hvort okkur líki hann eða ekki, líkt og þegar við horfum á málverk og metum stíl og efnistök málarans. Við veljum svo það sem okkur líkar best við.

Verið beitt í umfjöllun
Hér í bæ er ýjað að því að tilteknir fjölmiðlar séu ekki nægilega hlutlausir í efnistökum sínum. Ég hvet alla fjölmiðla hér í bæ að hafa sinn stíl og halda áfram á sinn hátt að tækla þau mál sem þeim þykir mikilvægust. Það er alltof mikið af því að stofnanir samfélagsins þori ekki að taka afstöðu í erfiðum málum af ótta við að styggja einhvern.