Í fréttum síðustu daga hefur verið umræða um varaafl í Eyjum í kjölfar rafmagnsleysis um síðustu helgi. Í því sambandi er rétt að skýra aðeins fyrirkomulag þessara mála. Löggjafinn tók þá ákvörðun 2004 að frá 1.1.2005 yrði hlutverk raforkufyrirtækjanna þrískipt. Í fyrsta lagi fyrirtæki á samkeppnismarkaði sem framleiddu og seldu raforkuna, í öðru lagi Landsnet sem flytti raforkuna frá virkjununum til skilgreindra afhendingarstaða dreifiveitnanna og stórnotenda og loks dreifiveiturnar sem tækju við raforkunni frá Landsneti og dreifðu til viðskiptavina sinna. Á þessum tíma átti sem dæmi Hitaveita Suðurnesja háspennulínur og tengivirki en varð að leigja eða selja þann búnað til Landsnets.

Í óveðrinu um helgina varð engin bilun í dreifikerfi HS Veitna sem olli truflun. HS Veitur fengu hinsvegar mjög takmarkaða orku afhenta frá Landsneti og því varð að grípa til varafls sem HS Veitur eiga frá gamalli tíð. Þetta varaafl er í raun eingöngu varafl fyrir Landsnet því það nýtist ekki komi til bilanna í dreifikerfinu, til þess þarf færanlegar varavélar. Landsnet hefur leigt aðgang að þessu varafli en greiðslan er það lág að ekkert vit er fyrir HS Veitur að fjárfesta í meira varaafli og fyrirtækinu tæplega heimilt að ráðast í slíkar fjárfestingar og dreifa kostnaðinum á alla viðskiptavini fyrirtækisins.

Það eru dæmi um að einstök fyrirtæki hafi sett upp varafl og fengið greitt fyrir frá Landsneti og það er mál sem er þá þeirra á milli þó dreifiveitan þurfi síðan að koma að málinu sem milliliður og eftir atvikum framkvæmdaaðili þegar rekstrartruflanir verða. Það að fyrirtæki þurfi varaafl til að tryggja sig í meginatriðum gagnvart truflunum hjá Landsneti leiðir hins vegar ekki til þess að kerfi dreifiveitunnar verði viðkvæmara þannig að dreifing um kerfið verði ótrygg dreifing og það hefur valdið misskilningi.

HS Veitur hafa í nokkur ár verið að þrýsta á Landsnet að koma upp varafli á stöðum eins og í Vestmannaeyjum sem búa við ótrygga afhendingu og treysta í meginatriðum á eina flutningsleið (ekki svokallað n-1) en það hefur ekki enn orðið að veruleika. HS Veitur eru einnig með möguleika á að bæta við varaaflið rúmlega 1 MW en það er kostnaðarsamt og núverandi leigugreiðslur réttlæta það einfaldlega ekki.

HS Veitum þykir miður að viðskiptavinir fyrirtækisins fái ekki þá þjónustu sem þeir þurfa. Staðan er hinsvegar sú að fyrirtækið getur ekki dreift orku sem það fær ekki afhenta og telur sér ekki fært að fjárfesta í frekara varafli eða gefa afslátt af eigin þjónustu vegna óöruggrar þjónustu annars aðila.

Júlíus Jónsson forstjóri