Ákveðið hefur verið að Mb Blátindur VE verði rifinn. En báturinn varð fyrir miklu tjóni í óveðri þann 14. Febrúar síðastliðinn. Eftir ýtarlega skoðun á bátnum hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að óráðlegt sé að gera við bátinn. Skipalyftan mun annast verkið en áætlað er að hefjast handa þegar veðrið gengur niður seinnipartinn í dag að sögn Sveins Rúnars Valgeirssonar skipstjóra á Lóðsinum sem hefur umsjón með verkinu fyrir hönd Vestmannaeyjahafnar. „Auðvitað er þetta sorglegur endir á sögu þessa báts en það var ekkert annað að gera. Báturinn er mikið skemmdur og ekkert vit í að halda áfram að reyna þetta“, sagði Sveinn í samtali við Eyjafréttir.

Blátindur VE21 var smíðaður í Eyjum 1947 af Gunnari Marel Jónssyni og var samfellt í útgerð til ársins 1992 en var endurgerður að frumkvæði áhugamannafélags um endurbyggingu vélbátsins sem stofnað var árið 2000.