Við erum að upplifa viðsjárverða tíma nú um þessar mundir, um það er engum blöðum að fletta. Við upplifum einhvers konar óvissu og jafnvel ugg um framtíðina. Hvað er fram undan?  Hvernig verður þetta þegar covidfaraldurinn er um garð genginn? Þessar spurningar og aðrar áþekkar leita sífellt á hugann þessa dagana.

Við þessar aðstæður fer ekki hjá því að maður fyllist aðdáun á því hve vel þjóðin virðist standa saman í baráttunni gegn covidveirunni og það hefur án efa  áhrif til góðs.

Það er einnig stórkostlegt að fylgjast með því hvernig ýmsir listamenn hafa stytt okkur stundir með því að dreifa list sinni til okkar og snert gleðistrengi í hjörtum okkar á erfiðum tímum. Fyrir það eiga þeir mikið þakklæti og hrós skilið. Þá hafa ýmsir úti í bæ, ef svo má segja, komið á óvart með alls kyns uppákomum sem dreift er til okkar um netið. Sumir syngja og spila, aðrir segja brandara, enn aðrir setja á svið margvíslega viðburði sem sannarlega heilla mann. Sem sé, vítt um land er fólk sem hefur ótvíræða hæfileika til að létta okkur lundina. Ég dáist að þessu fólki öllu.

En þá kem ég að allt öðru sem reyndar tengist þessu óbeint, eða kannski bara  þráðbeint þegar betur er að gætt.  Ég má til með að segja ykkur frá draumi sem mig dreymdi fyrir tveimur nóttum. Mig dreymdi sem sé að ég væri að hlusta á skemmtilega og frábæra heimagerða dagskrá frá fjölmörgum venjulegum Íslendingum af öllum landshornum. Flottur draumur og skemmtilegur með afbrigðum. Þá gerist það að þrír stórútgerðarmenn úr minni heimabyggð stíga á svið og kynna sitt númer. Þremenningarnir kynntu sig sem „Hin lítillátu“ og sögðust mundu flytja „Vísur Vatnsenda-Rósu.“ Ó, hve ég gladdist. Mér hefur alltaf þótt svo vænt um þessar vísur og í fyrsta erindinu finnst mér „Mitt er þitt og þitt er mitt“ vera svo tilkomumikið, þau orð minna mig alltaf á hve mikil hamingja og réttlæti hlýtur að felast í því að eiga eitthvað saman. Þetta á við um svo margt til dæmis náttúruna, auðlindir hafsins, svo sem makríl og margt, margt fleira.

Hin lítillátu sungu lagið reglulega vel, raddað og nánast gallalaust. Þau komu sannarlega á óvart og sýndu á sér nýja og óvænta hlið. Eitthvað truflaði mig þó við flutninginn og þegar ég gætti betur að kom jú í ljós að söngurinn var frábær en textinn hafði eitthvað brenglast. Í stað „Mitt er þitt og þitt er mitt“ var nú komið „Mitt er mitt og þitt er líka mitt“. Þegar þangað var komið í draumi mínum hrökk ég upp af svefni og draumurinn varð ekki lengri. Ég hef ekki getað losnað við þennan draum úr huga mér og ég leyfi mér að deila honum með ykkur. Verum góð hvert við annað!

 

Ragnar Óskarsson