Heildarafli íslenska flotans þegar fiskveiðiárið 2019/2020, sem hófst 1. september 2019, var  hálfnað nam rúmlega 420 þúsund tonnum upp úr sjó. Þetta kemur fram í frétt á vef Fiskistofu. Til samanburðar var aflinn á sama tímabili í fyrra rúm 496 þúsund tonn. Þetta er samdráttur í heildarafla milli fiskveiðiára sem nemur um 15% eða um 76 þúsund tonnum.

Samdráttur í botnfiskafla nam um 26 þúsund tonnum en af því  var samdráttur upp á um 6 þúsund tonn  í þorski og annað eins í ýsu.  Botnfiskaflinn er rúmlega 10% minni en á sama tímabili á fyrra fiskveiðári. Almennt er kvótastaðan í bolfiski í góðu jafnvægi og heldur rýmri en á fyrra fiskveiðári, sérstaklega hjá krókaaflamarksbátum sem einundis hafa notað rúm 44% aflaheimildanna þegar árið er hálfnað.

Mesti samdrátturinn hefur verið í uppsjávarafla eða sem nemur ríflega 20% eða um 50 þúsund tonnum. Nokkur aukning var í síld en samdráttur var upp á 20 þúsund tonn í kolmunna og rúm 38 þúsund tonn í makríl, en  seinni hluti makrílvertíðarinnar ár hvert nær inn á fyrstu mánuði nýs fiskveiðiárs.