Eftir erfiðan vetur virðist vorið loksins vera komið. Veðrið síðustu dagana ber það sterklega með sér þar sem eyjan okkar hefur skartað sínu fegursta í blíðunni undanfarið. Sjálfur fagna ég sérstaklega endalokum þessa vetrar, enda með eindæmum erfiður og leiðinlegur.

Segja má að farsóttin hafi sett samfélagið allt á hliðina, bæði hér í Vestmannaeyjum sem og annars staðar. Vestmannaeyjabær ákvað um miðjan apríl að fara í margvíslegar aðgerðir til þess að bregðast við niðursveiflunni meðal annars með því að fresta gjalddögum, flýta verklegum framkvæmdum með það fyrir augum að skapa einstaklingum störf og fyrirtækjum tekjur og hefja atvinnuátak sem stuðlar að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Þá var ákveðið að hefja markaðsátak í samstarfi við Ferðaþjónustusamtökin í sumar þar sem Íslendingar eru hvattir til þess að sækja okkur heim. Lengi mætti áfram telja og allt í allt nemur umfang þessara aðgerða 714 milljónum í viðbót við fjárhagsáætlun ársins. Geri aðrir betur!

Í gær bárust svo þau gleðilegu tíðindi að ferðum Herjólfs verður fjölgað strax á mánudag og verða 4 ferðir sigldar til og frá Eyjum og frá 13. maí verða sigldar 6 ferðir á hverjum degi. Þetta eru ákaflega gleðileg tíðindi.

Á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi bar ég upp tillögu þess efnis að uppbyggingu leikvalla, sem þegar hafði verið samþykkt, yrði flýtt enn frekar. Þannig verður gert ráð fyrir að tveir nýir leikvellir verði byggðir upp á árinu í stað þess eina sem áður hafði verið samþykktur auk þess sem farið verður í endurbætur á þeim leikvöllum sem þegar eru til staðar. Þessir leikvellir verða staðsettir í íbúahverfum bæjarins og verður áhersla lögð á barnvænt umhverfi, gott og traust undirlag í snyrtilegu nærumhverfi.

Það er margt sem bendir til þess að í sumar verði íbúar í Vestmannaeyjum meira heimavið en við höfum vanið okkur á hingað til. Með þessu móti aukum við lífsgæði barna og barnafjölskyldna enn frekar.

Í þannig samfélagi vill ég búa.

Um leið og ég óska öllum Vestmannaeyingum til hamingju með baráttudag verkalýðsins vil ég hvetja alla til þess að njóta alls þess góða sem bærinn okkar hefur uppá að bjóða í sumar. Samtakamáttur Vestmannaeyinga hefur bersýnilega komið í ljós að undanförnu og saman komumst við í gegnum þann skafl sem við höfum staðið frammi fyrir.

Því segi ég áfram Vestmannaeyjar!

 

Njáll Ragnarsson