Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari opnaði í dag ljósmyndasýningu sem hann verður með í Vigtinni Bakhúsi um Sjómannadagshelgina. Óskar bauð gesti velkomna og rifjaði upp sögur af því þegar faðir hans starfaði sem vigtarmaður í sama húsi.

„Í haust sýndi ég myndir frá höfninni, skipin og sjómennina þessi sýning er með svipuðu sniði. Höfnin hefur alla tíð verið hluti af lífi mínu í leik og starfi. Þar lék maður sér sem krakki, var á sjó, í netagerð og smíðavinnu sem oftar en ekki var við höfnina. Núna er ég að vinna í Hampiðjunni sem er á bryggjukantinum í norður höfninni. Og myndavélin aldrei langt undan,“ segir Óskar Pétur sem byrjaði ungur að taka myndir.

“Sýningin verður opin í nokkra daga og eru allir velkomnir. Ég hlakka til og vonast til að sjá sem flesta á Vigtinni Bakhúsi,” sagði Óskar að lokum.