Stoltur og ánægður að sjá þetta verkefni í höfn

0
Stoltur og ánægður að sjá þetta verkefni í höfn
Frá undirbúningsfundi Lions og Líknar.

Stefnt er að því í haust að aðstaða fyrir augnlækna af fullkominni gerð verði starfrækt innan HSU í Vestmannaeyjum það er Hjálparsjóður alþjóða Lions hreyfingarinnar (Lions Clubs International Foundation, LCIF) sem stendur að baki kaupunum ásamt fjölda bakhjarla. Áætlaður kostnaður við tækin og fylgihluti verði tæpar 24 milljónir króna en helmingur upphæðarinnar kemur frá sjóðnum. Forsaga málsins er sú að forsvarskonur hjá Kvennfélaginu Líkn höfðu bæði lýst yfir áhuga að koma að einhverju veglegu verkefni með stofnuninni. Kom þá upp sú hugmynd að endurnýja augnlækningartæki stofnunarinnar. Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóra lækninga við HSU kom að málinu með félaginu. „Eftir að hafa kannað málið var niðurstaðan sú að tímaskekkja væri að uppfæra núverandi búnað skynsamlegast væri að sinna þessari þjónustu í Eyjum með nútíma-tækjabúnaði, því annars yrði stór hluti skjólstæðinga að fara í ítarlegra mat í höfuðborgina. Það væri tvíverknaður og auk þess myndi þá þjónustan ekki sinna hlutverki sínu sem skyldi í heimabyggð með tilliti til aðgengis að þjónustu og að draga úr þörf fyrir ferðir til Reykjavíkur. Nýrri búnaður býður upp á að rannsóknir séu gerðar í Eyjum og sendar til Reykjavíkur til fjarvinnslu og mats þótt augnlæknir sé ekki til staðar í Eyjum þá stundina,“ sagði Hjörtur.

Sigmar Georgsson, Lionsklúbbi Vestmannaeyja og Guðrún Yngvadóttir stjórnarformaður Hjálparsjóðs alþjóða Lions hreyfingarinnar (Lions Clubs International Foundation, LCIF) sem stendur að baki kaupunum ásamt fjölda bakhjarla.

Ljóst var að þessi búnaður kostaði mun meira en það sem áður hafði verið rætt og Líknar konur ekki með bolmagn til að klára það. Þá var leitað til Lions að koma að verkefninu en þar varð Sigmar Georgsson fyrir svörum. „Það vildi þannig til að ég var á leiðinni á umdæmisþing hjá Lions þegar þessi hugmynd kemur upp og ég ræði þetta við félaga mína í klúbbum á suðurlandi. Úr varð að ég fékk fjóra Lions klúbba með mér til að vera bakhjarlar að umsókn til Alþjóða hjálparsjóðsins. Það voru Dynkur, Geysir, Selfoss og Skjaldbreiður. Umsóknin var samþykkt með krónu á móti krónu framlagi sem er algengt með umsóknir sem þessar. Það var því ljóst að við ættum ærið verkefni fyrir höndum að safna á 11-12 milljónum, en sjóðurinn kæmi svo með sama framlag á móti. Þetta er búið að vera mikil vinna sem hefur fylgt þessu bæði söfnunin og ferlið hjá sjóðnum, auk þess hefur covid og gengis breytingar aðeins flækt verkefnið hjá okkur. Ég er ofboðslega stoltur og ánægður að sjá þetta verkefni í höfn en það hefði ekki verið hægt án allra þeirra bakhjarla sem að verkefninu komu,“ sagði Sigmar. Auk Lions í Vestmannaeyjum og Líknar eru Ísfélagið, Vinnslustöðin og Huginn stærstu bakhjarlar verkefnisins. „Við höfum fengið framlög víða og hefur fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hjálpað okkur með það. Það var svo Guðrún Yngvadóttir stjórnarformaður hjálparsjóðsins (LCIF) sem er er fyrsta konan til að gegna þessari stöðu í rúmlega hálfrar aldar sögu sjóðsins sem staðfesti styrkinn við okkur núna í vor,“ sagði Sigmar.

Stóraukin þjónusta við Eyjamenn
„Það eru enn nokkrir lausir endar sem við erum að klára,“ sagði Hjörtur. „Við erum að lenda samningum við Sjúkratryggingar Íslands um fjármögnun á verkefninu. Við funduðum með þeim í síðustu viku og ég er ekki trú á öðru en að það klárist. Þá eru einnig á lokametrunum samningar við stóra augnlæknastofu í Reykjavík um að þjónusta þetta með okkur. Þannig að ég trúi því að við getum sett þetta af stað í haust þegar við erum búin að binda um lausa enda. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og ljóst að Eyjamenn fá stóraukna þjónustu með nýjum tækjum og reglulegum heimsóknum augnlækna. Hluti af þessum búnaði verður augnbotnasneyðmyndataka og fullkominn augnbotnamyndavél og sjónsviðsmælir. Nú getur skjólstæðingur fengið rannsóknir og eftirfylgni milli þess að læknar komi án þess að þurfa að gera sér ferð í borgina sem er mikill munur frá því sem var. Meirihluti þeirra sem sækja þjónustu augnlækna eru eldra fólk og kemur þetta til með bæta lífskjör þeirra,“ sagði Hjörtur að lokum.