Okkur er tamt að segja í Vestmannaeyjum – fyrir og eftir gos. Svo djúp og óafmáanleg er minningin um eldgosið sem hófst aðfaranótt 23. janúar 1973.  Íbúarnir, yfir fimm þúsund einstaklingar, yfirgáfu heimili sín sem mörg hver fóru undir ösku og eld. Hluti af Heimaey fór undir hraun og austurbærinn sem áður var blómleg byggð var skyndilega horfinn. Þessa sögu þekkja allir og hér í Eyjum gerum við meira en að þekkja söguna – hún er stór hluti af því að vera Vestmannaeyingur.

En við þekkjum líka framhaldið – 3. júlí. Í dag fyrir réttum 47 árum gaf Almannavarnanefnd út að gosinu væri lokið og uppbyggingastarfið tók við. Um vorið hafði lundinn sest upp og á eftir komu íbúarnir – með bjartsýni, kraft og dugnaði sem feykti burt öskunni og ný hús risu í stað þeirra er hamfarirnar höfðu molað sundur. Það er þessa áræðis sem við minnumst um hver Goslok, við gáfumst aldrei upp og við gefumst aldrei upp. Vegleg dagskrá Goslokanefndar ár eftir ár endurspeglar þessa bjartsýni og þótt við verðum að þessu sinni að sleppa fjölmennari mannamótum þá gefum við bara í um næstu Goslok.

Í ár eins og undanfarin ár er fjölmargt að skoða og njóta. Um leið og ég þakka fyrir þá vinnu sem Goslokanefnd og fjölmargir aðrir hafa lagt á sig til að við getum glaðst saman þá óska ég bæjarbúum til hamingju með daginn og helgina framundan. Þótt eldgosið í Vestmannaeyjum sé svo sannarlega mikill harmleikur og hafi breytt varanlega eyjunni okkar fögru þá hefur það þrátt fyrir allt kennt okkur lexíuna góðu – það er hægt að takast á við allt ef við stöndum saman og berjumst saman.

Íris Róbertsdóttir

Bæjarstjóri