Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna senda frá sér yfirlýsingu vegna kjaradeilu Sjómannafélags Íslands við Vestmannaeyjaferjuna Herjólf ohf.

Ekki hefur enn verið gerður kjarasamningur við starfsmenn í Sjómannafélagi Íslands um borð í m.s. Herjólfi.

Hvorki skipstjórnarmenn né vélstjórar á m.s. Herjólfi munu ganga í störf háseta og þerna meðan á verkfallsaðgerðum stendur enda hefur Félagsdómur dæmt í málinu og vinnustöðvunin er lögmæt.

Það er grunnkrafa launafólks að fá að semja um sín kjör og beita verkfallsvopninu ef það þarf. Það er öllum ljóst sem þekkja til að á meðan á verkfalli stendur hjá hásetum og þernum mun skipið ekki sigla.