Íslensk olía á skip og vinnuvélar

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins skrifar

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Rannsóknir sýna að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Á Íslandi er ónýtt ræktunarland til staðar fyrir repjuræktun. Hægt er að minnka losun margra gróðurhúsaloftegunda um allt að 70% á tiltölulega auðveldan hátt með því að breyta eldsneytisnotkun skipa og annarra vinnuvéla þannig að þau noti jurtaolíu, bíódísil eða annað lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Tækifærin felast í ræktun orkujurta á Íslandi.

Tvöföld kolefnisjöfnun
Bíódísill úr repjuolíu er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur. Bíódísil má nota í olíubrennurum og á allar dísilvélar farartækja og varla þarf að breyta vélunum ef skipta skal yfir á bíódísil.

Olíuframleiðsla á ónýttu landi
Ísland hefur þá sérstöðu að ekki þarf að taka undir ræktunina land sem almennt er í ræktun fyrir matjurtir. Það eru góð skipti að skipta mel og söndum út fyrir gula akra, ekki satt? Gott ræktunarland á Íslandi er aðeins 6% af flatarmáli landsins, eða 600.000 hektarar. Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar og tiltækt ræktunarland er því um 480.000 hektarar. Með sérstöku átaki mætti framleiða alla þá olíu sem íslenski skipaflotinn notar á nú ónýttu landi.

Áhersla á fiskiskipaflotann
Í samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda er stefnt að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna á Íslandi verði undir 750 þúsund tonnum árið 2020, sem er í samræmi við aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Til að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á að auknar verði rannsóknir á umhverfisvænum orkugjöfum til að þróa og framleiða vistvænt eldsneyti. Einnig að markvissar aðgerðir og ívilnanir miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sérstök áhersla er lögð á að auka notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann.

Undirrituð hefur lagt fram þingsályktun varðandi ræktun og nýtingu íslenskra og þann 8. sept. sl. undirrituðu Samgöngustofa og Isavia viljayfirlýsingu um kolefnislausan flugvöll, í samræmi við Flugstefnu. Fyrsta skrefið er að prófa íblöndun á repjuolíu á vinnuvélar þjónustudeildar Isavia. Verkefni er spennandi áfangi í orkuskiptum og einmitt í því umhverfi þar sem þróunin í orkuskiptum er hægari en í fólksbílum hentar íblandað eldsneyti mjög vel og verður að jákvæðri kolefnislausn.

Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostlega tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.

Áfram veginn!
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins