Fjárhagsáætlun 2020 var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Umræðan hófst á bókun frá fulltrúum D lista. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að við fjárhagsáætlunarvinnuna verði leitað leiða til að draga úr álögum á bæjarbúa til hagsbóta fyrir heimilin. Útsvarstekjur sveitarfélagsins hafa hækkað undanfarin ár og þrátt fyrir fyrirsjáanlegar efnahagslegar þrengingar og mikla óvissu er mikilvægt að hagræða þar sem kostur er og halda úti öflugri þjónustu með sem minnstum tilkostnaði.

Færi betur á því að koma til móts við barnafjölskyldur og eldri borgara
Fulltrúar E og H lista svöruðu því með eftirfarandi bókun. Töluverð óvissa ríkir um efnahagshorfur næstu misserin, hvort heldur er af beinum og óbeinum áhrifum Covid-19 eða af þróun aflabragða t.d. í loðnu. Í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur á þessu ári, þar sem þrengt hefur að fjárhagsstöðu bæjarins, og óvissunni framundan, er ekki ábyrg fjármálastjórnun að lækka útsvar á þessum tímapunkti. Nær væri að lækka útsvar í efnahagslegri uppsveiflu og þegar útlit er fyrir myndarlega rekstrarafkomu bæjarsjóðs. Tækifæri voru næg til lækkunar útsvars þegar sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta á árum 2006-2018. Rekstur sveitarfélagsins gekk vel, þáverandi meirihlutinn nýtti sér þó aðeins einu sinni á 12 árum að lækka útsvar þrátt fyrir jákvæða rekstrarafkomu á bilinu tæpar 300 millj. til 1.000 millj. nær öll þessi ár. Sú útsvarslækkun var fyrir kosningaárið 2014 en íbúar nutu þess ekki lengi því aftur hækkaði sjálfstæðisflokkurinn útsvarið árið 2016.
Ef létta á undir með íbúum færi betur á því að koma til móts við barnafjölskyldur, eldri borgara, þá tekjulægri og þá sem eru að koma undir sig fótunum. Það er gert með því að lækka þjónustugjöld fyrir t.d. leikskóla, máltíðir og frístund sem nýtist íbúum betur á þessum tímum. Þetta er meirhluti E- og H-lista tilbúinn að skoða við gerð fjárhagsáætlunar sé svigrúm til.

Enginn betur til þess fallin að ráðstafa peningum en þeir sem vinna fyrir þeim.
Liðurinn var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum. Hildur Sólveig Sigurðardóttir fulltrúi D lista gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun og Eyþór Harðarson fulltrúi D lista, tók undir bókunina: Undirrituð lýsa yfir undrun yfir því að það hugnist ekki bæjarfulltrúum meirihlutans að skoða hvort svigrúm reynist til útsvarslækkunar. Enginn er betur til þess fallin að ráðstafa þeim peningum sem fólk aflar en einmitt þeir sem vinna sjálfir fyrir þeim. Það mætti útleggjast sem ákveðið lýðræðismál að hafa álögur á bæjarbúa sem lægstar til að þeir sjálfir hafi ákvörðunarréttinn til að ráðstafa sínum peningum frekar en að framselja þann rétt til fárra kjörinna fulltrúa. Einmitt á krepputímum, þegar sveitarfélagið hefur möguleika á að létta undir með bæjarbúum ættum við í það minnsta að skoða það hvort það sé möguleiki og hvað við getum mögulega gert til þess þannig að allir bæjarbúar njóti góðs af en ekki eingöngu þeir sem nýta sér niðurgreidda þjónustu sveitarfélagsins. Því hvet ég ykkur áfram til að skoða það af fullri alvöru hvort við getum ekki skoðað áhrif þess að lækka útsvar í sveitarfélaginu, með það að markmiði að létta undir skattgreiðendum á erfiðum tímum, að gera Vestmannaeyjabæ að enn eftirsóknarverðari búsetukosti og síðast en ekki síst til að leyfa bæjarbúum sjálfum að ákveða í hvað þeim finnst skynsamlegt að verja sínum krónum í.