Í gær tók gildi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Lögreglu menn í Vestmannaeyjum heimsóttu verslanir og veitingahús og minntu fólk á grímuskildu og fjarlægðarmörk. Arndís Bára Ingimarsdóttir settur lögreglustjóri í Vestmannaeyjum sagði í samtali við Eyjafréttir að lögreglan muni sinna eftirliti með grímunotkun í verslunum á meðan reglugerðin er í gildi.

“Grímuskyldan á við þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna og er það mat lögreglu að ekki er hægt að tryggja þá reglu í verslunum, sérstaklega við afgreiðslu. Grímulaus einstaklingur í verslun getur heldur ekki tryggt að næsti grímulausi maður virði tveggja metra regluna. Vill lögregla beina því til bæjarbúa að bera grímur í verslunum, bæði afgreiðslufólk og viðskiptavini, og auðvitað þar sem það er skylda t.d. á hárgreiðslustofum og snyrtistofum.”

Arndís sagði að samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara er lögreglu heimilt að sekta vegna brota á nálægðartakmörkunum, þá ef tveggja metra reglan er ekki virt og ef grímuskyldu er ekki framfylgt þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna. “Heimilt er að sekta forsvarsmenn/skipuleggjanda þeirrar starfsemi/samkomu þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra regluna. Sektir ákvarðast eftir alvarleika brots 100.000 – 500.000 kr. Sektarheimildin nær eingöngu til fyrsta brots sem þýðir að gerist viðkomandi brotlegur í annað sinn verður gefin út ákæra í málinu.  Einnig er heimilt að sekta vegna brota á reglum um notkun andlitsgrímu. Heimilt er að sekta einstaklinga og forsvarsmenn starfsemi þar sem skylda er að nota andlitsgrímu. Eins og segir ákvarðast sektir eftir alvarleika brots en heimilt er að sekta einstaklinga allt frá 10.000 – 100.000 kr. og forsvarsmenn starfsemi allt frá 100.000 – 500.000 kr,” sagði Arndís.