Vinnslustöðin er nr. 37 á lista alls 842 fyrirmyndarfyrirtækja af öllum stærðum og gerðum á landinu öllu árið 2020. Creditinfo birti listann í dag.

Vinnslustöðin var í 46. sæti fyrir árið 2019 og hefur því þokast upp um níu sæti frá því í fyrra á þessum eftirsótta gæðalista!

Einungis um 2% allra íslenskra fyrirtækja standa strangar kröfur sem gerðar eru til að komast í þennan úrvalsflokk fyrirtækja.

Creditinfo skiptir fyrirtækjunum í þrjá flokka eftir stærð:

  • Lítil (eignir samtals 100-200 milljónir króna).
  • Meðalstór (eignir samtals 200-1.000 milljónir króna).
  • Stór (eignir samtals 1.000 milljónir króna eða meira.

Alls eru níu fyrirtæki í Vestmannaeyjum á fyrirmyndarlistanum 2020. Þau eru eftirfarandi, framan við er númer þeirra á lista alls 842 fyrirmyndarfyrirtækja.

37 – Vinnslustöðin hf.

40 – Ísfélag Vestmannaeyja hf.

68 – Huginn ehf.

174 – Ós ehf.

245 – Bylgja VE-75 ehf.

425 – Vélaverkstæðið Þór ehf.

491 – Skipalyftan ehf.

783 – Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja.

838 – Miðstöðin Vestmannaeyjum ehf.

Það að komast á lista fyrirmyndarfyrirtækja snýst í raun um stöðugleika í rekstri en ekki að ná góðum árangri í eitt og eitt ár. Stöðugur og góður árangur ár eftir ár telst framúrskarandi. Detti fyrirtæki út af listanum þarf það framúrskarandi rekstrarárangur þrjú næstu ár til að komast inn á listann á nýjan leik.

Standast þarf eftirfarandi kröfur til að teljast framúrskarandi 2020:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1, 2 eða 3.
  • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag.
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo.
  • Framkvæmdastjóri skráður hjá ríkisskattstjóra.
  • Rekstrartekjur að minnsta kosti 50 milljónir króna síðustu þrjú ár.
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár.
  • Jákvæð rekstrarniðurstaða síðustu þrjú ár.
  • Eiginfjárhlutfall að minnsta kosti 20% síðustu þrjú ár.
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár.