Brandarafélag í Eyjum, sem kenna sig við Ketil Bónda hafa varpað fram fullyrðingum um uppruna MOM air og telja að um sé að ræða brandara af einhverri sort.

“Við sem föttuðum uppá þessum brandara” segja þeir í fréttatilkynningu til Eyjafrétta.

Þessir miklu fattarar hafa þó ekki fattað að kynna sér sögu MOM air, sem gengur aftur til ársins 2011.

Skúli félagi minn Mogensen nefndi nefnilega MOM til sögunnar á sama tíma og hann tilkynnti um hið nýja flugfélag WOW air. Þá er það einnig vel þekkt að starfsmannafélag WOW air hét hér áður fyrr, MOM air.

Aðrir fattarar og brandarakallar hafa einnig varpað fram hugmyndum sínum að MOM air, eins og sjá má á samfélagsmiðlum. Hallgrímur Helgason og Sölvi Fannar settu tildæmis fram samskonar hugmyndir 2019 og 2015.

Eins og sjá má hér að neðan, þá eiga fattararnir frá Eyjum inni nokkrar níðstangir miðað við þetta.

Hitt er annað mál að MOM air hefur ríkulega sögu í þjóðarsálinni, staðfast og sterkt vörumerki, sem hefur nú fengið brautargengi í nýju flugfélagi.

Vörumerkið hefur verið sent til skráningar hjá Hugverkastofu og geta þá pjakkarnir í Eyjum farið að einbeita sér að fatta upp á nýjum bröndurum. Félagarnir hafi haft sjálfa sig að háði og spotti með fyrrgreindri fréttatilkynningu.

Að lokum. Ef menn telja að forstjóri hins nýja félags kunni ekki að svara fyrir sig, þá er það gróflegt vanmat á aðstæðum.

Með virðingu og vinskap,
Odee
CEO and Founder
MOM air