Í dag föstudaginn 20.nóvember opnar ný vefsíða fyrir eldri aldurshópa sem heitir Aldur er bara tala www.aldurerbaratala.is. Síðan er einnig á fésbókinni https://facebook.com/aldurerbaratala

Markmið síðunnar er að gefa eldri aldurshópum tækifæri til að hafa aðgang að fræðslu og ráðgjöf um mál er þá varða hvar sem þeir eru búsettir á landinu en mikil fjölgun er í hópi þeirra eldri borgara sem hafa náð að tileinka sér tölvutæknina. En eins og nafnið gefur til kynna að þá er Aldur bara tala og markmiðið líka að yngri aldurshópar og starfsfólk í öldrunarþjónustunni hafi gagn og gaman að því að skoða síðuna.

Aldur er bara tala er ætlað að veita leiðbeiningar, stutta ráðgjöf og fræðslu til eldri aldurshópa þar sem hægt er að senda fyrirspurnir í gegnum fyrirspurnarform á forsíðunni. Úrdráttur úr fyrirspurn og svari er síðan birt á síðunni til að það nýtist öllum og að sjálfsögðu undir nafnleynd. Að þessari ráðgjöf og fræðandi greinum koma Sólrún Erla Gunnarsdóttir félagsráðgjafi, Soffía Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og Guðný Stella Guðnadóttir öldrunarlæknir. Fleira fagfólk mun bætast í hópinn síðar.

Aldur er bara tala á einnig að hafa afþreyingargildi og jákvæð áhrif á heilsu og líðan með
uppbyggilegum og skemmtilegum greinum og viðtölum. Við tökum einnig vel á móti innsendum greinum og vangaveltum er snúa að því göfuga hlutverki að fá að eldast. Aldur er bara tala er verkefni sem kemur til með að þróast með þeim sem nýta síðuna og eru því allar ábendingar og efni vel þegið á [email protected].

Aldur er bara tala hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands og er í samstarfi við
félagsmálaráðuneytið.