Almannavarnanefnd Vestmannaeyja lýsir alvarlegum áhyggjum af þeirri stöðu sem uppi er varðandi þyrlur Landhelgisgæslunnar en fyrir liggur að frá og með miðnætti á morgun, miðvikudaginn 25.11.2020, verður engin þyrla til taks hjá Gæslunni í a.m.k. tvo daga. Þetta er með öllu óviðunandi og getur ógnað öryggi íbúa í Vestmannaeyjum og sjófarenda ekki síst í því ljósi að veðurspá fyrir næstu daga er slæm og við búið að samgöngur milli lands og Eyja geti raskast verulega af þeim sökum.

Almannavarnanefnd Vestmannaeyja skorar á stjórnvöld að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þyrluþjónusta Landhelgisgæslunnar og neyðarþjónusta á sjó og landi verði með viðunandi hætti.