Í tilkynningu til frá Sólrúnu Gunnarsdóttur, deildarstjóra öldrunarmála hjá Vestmannaeyjabæ segir hún íbúa Hraunbúða nú telja niður dagana í seinni sprautu bóluefnisins sem verður í kringum 19. janúar „en þá eru komnar þrjár vikur á milli skammta. Nokkrum dögum eftir það ætti mótefni að hafa myndast hjá heimilisfólki gegn veirunni.
Starfsfólkið hefur ekki enn fengið bóluefni og höfum við því miður ekki upplýsingar um hvenær það verður en vonandi sem allra fyrst. Við vonum a.m.k að gætt verði jafnræðis varðandi landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Starfsfólkið okkar er bæði í senn heilbrigðisstarfsfólk og framlínustarfsfólk, við getum a.m.k ekki séð það á neinn annan máta. Starfsfólkið er í framlínu við að vernda okkar viðkvæmasta hóp og fyrir það erum við þeim ómetanlega þakklát enda ekki búið að vera auðvelt að vinna í þessum skrítnu kringumstæðum,“ segir í tilkynningunni.

„Við munum halda í sömu heimsóknarreglur næstu daga og verið hafa undanfarið, það er einn og sami gestur í viku, ítarlegar sóttvarnir, heimsóknir í einkarými íbúa og beint inn og beint út aftur. Virða þarf tveggja metra regluna, grímuskylda er og heimsóknartímar eru á milli kl. 13-17.
Áfram þarf heimsóknargestur að vera skráður í gegnum netfangið [email protected]
EN við viljum þó endilega benda ykkur á að hafa samband við okkur ef þið metið það mikilvægt að fá undanþágu frá þessum reglum, s.s ef þið hafið áhyggjur af andlegri heilsu íbúa. Við erum í þessu saman og viljum finna lausnir saman. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er farið að taka á alla en við höldum í þá von og trú að þetta fari allt að taka enda.
Það er ljóst að þegar heimilisfólk verður komið með virkt mótefni munum við slaka á reglunum og heimilisfólkið okkar verða frjálsara. Það verður mikil gleði þegar það verður, en von er á nýjum tilslökunum seinnipartinn í janúar.
Við munum þó þurfa að halda í einhverjar takmarkanir og skiptingar þar til starfsfólkið okkar hefur fengið bólusetningu líka.
Takk kærlega fyrir alla umhyggju og stuðning á síðustu mánuðum, það er búið að vera ómetanlegt fyrir starfsfólkið okkar að finna hlýhuginn frá ykkur.“