TWE Live kynnir með miklu stolti frumsýningu Grease tónleikasýningarinnar á Goslokahátíðinni í Vestmannaeyjum föstudagskvöldið 2. júlí í Íþróttahöllinni.

Tónlistarfólkið Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og Ingólfur Þórarinsson (Ingó veðurguð) bregða sér í hlutverk eins þekktasta pars kvikmyndasögunnar í tónleikauppsetningu á söngleiknum Grease.

„Það er með miklu stolti og gleði sem við hjá TWE Live tilkynnum að Grease tónleikasýningin verður frumsýnd í Eyjum. Það er mér mjög mikilvægt að fá að frumsýna tónleikana í heimabæ mínum og það á  Goslokunum sjálfum sem er okkur Eyjamönnum afar kær helgi,“ segir Björgvin Þór Rúnarsson stofnandi og einn eigenda TWE Live, en Björgvin Þór er Eyjamönnum að góðu kunnur.

„Það verður öllu tjaldað til í samstarfi við Goslokanefnd. Hljóð, ljós og skjáir verða í toppgæðum, og fá Eyjamenn og þeirra gestir sömu sýningu og sett verður upp á Akureyri og í Reykjavík,“ segir Björgvin Þór.  Um 25 manns koma að sýningunni frá TWE live, en allt í allt eru það um 120 manns sem koma að uppsetningunni með einum eða öðrum hætti þetta kvöld og er því um að ræða stórviðburð í þeim skilningi.

Björgvin Rúnarsson

Björgvin Þór er ekki eini Eyjamaðurinn í hópnum sem kemur að uppsetningunni á Grease. Tónlistarmaðurinn Ingó veðurguð er „Eyjamaðurinn.“ Selma Ragnarsdóttir, sem sér um búninga og hönnun, er fædd og uppalin í eyjum ásamt Sighvati Jónssyni „Hvata“ sem hefur séð um auglýsingar og „trailera“  fyrir TWE Live undanfarin ár.

Stefanía Svavarsdóttir, söngkona, sem áður hefur meðal annars tekið þátt í ABBA uppfærslum með Jóhönnu Guðrúnu, og Stefán Jakobsson, söngvari þungarokkshljómsveitarinnar DIMMU verða Jóhönnu Guðrúnu og Ingó til halds og trausts, auk söngvara og annars listafólks, sem munu sjá til þess að ekkert verður til sparað til að gera upplifun og skemmtun gesta sem allra mesta, Selma Björnsdóttir kemur einnig að tónleikunum varðandi leikstjórn.

Tónleikasýningin verður full af gleði þar sem Jóhanna Guðrún, Ingó og aðrir leikarar, dansarar og átta til tíu manna hljómsveit sem skipuð er topp tónlistarmönnum, auk myndbanda á risaskjáum, munu fá að njóta sín í frábæru hljóði og ljósi.

Miðasala hefst þriðjudaginn 2. febrúar kl 10:00 á tix.is.

Aðeins er selt í stúkuna og stóla á gólfi og því um takmarkað magn miða að ræða.

Athugið! Eyjamenn sem þegar hafa keypt miða á tónleikasýninguna í Laugardalshöll 23.október 2021 og vilja skipta yfir á sýninguna í Eyjum geta haft samband við Tix.is með breytingu á þeim miðum eftir að miðasala hefst.

Grease tónleikasýningin verður síðan sýnd laugardagskvöldið 4. september í íþróttahöllinni á Akureyri í samstarfi við handknattleikdeild Þórs og í Laugardalshöll laugardagskvöldið 23. október. Við vekjum athygli á að miðaverð á sýninguna er það sama í Eyjum, Laugardalshöll og í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Eitt þekktasta par tónlistarsögunnar
Jóhanna Guðrún verður í hlutverki Sandy, sem bresk-ástralska leik- og söngkonan Olivia Newton-John lék, og gerði hana heimsfræga.

„Það er algjör draumur að taka þátt, við Ingó höfum talað um það í mörg ár hvað það yrði gaman að taka þátt í svona sýningu saman,“ segir Jóhanna Guðrún, sem er spennt fyrir hlutverkinu, en hún hefur áður tekið þátt í uppfærslum á lögum ABBA. „Svo er ég brjálaður Grease aðdáandi frá blautu barnsbeini. Aðspurð segir hún að uppáhalds lag hennar úr kvikmyndinni sé Hopelessly Devoted To You. „Ég elska öll lögin úr myndinni, en ef ég verð að velja eitt þá er það Hopelessly Devoted To You, það er svo fallegt og mikið söngkonu lag.”

Ingó verður í hlutverki Danny, sem bandaríski töffarinn og dansarinn John Travolta lék og heillaði okkur upp úr skónum.

„Ég er spenntur að taka þátt í sýningunni því ég er ekki mikill leikhúskall. Fer frekar bara alltaf á Grease því það eru góð lög og einföld saga sem gengur upp,“ segir Ingó, en þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur þátt í tónleikasýningu eins og þessari. Uppáhaldslag hans úr Grease We Go Together. „Maður kemst bara í gott skap við það lag og svo er það mikill dans og mig dauðlangar að geta dansað.“

Grease heillaði heimsbyggðina
Kvikmyndin Grease var frumsýnd vestanhafs 16. júní 1978 og náði feiknavinsældum og hylli áhorfenda. Kvikmyndin sló í gegn bæði í vinsældum og í tekjum, og varð tekjuhæsta söngmynd allra tíma. Platan varð önnur mest selda plata ársins og hlaut lagið Hopelessly Devoted To You sungið af Oliviu Newton-John tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Ólíkt því sem er í dag voru myndir á þessum tíma lengi að berast til sýninga hérlendis og var Koppafeiti, eins og myndin fékk að heita í íslenskri þýðingu, frumsýnd hérlendis laugardaginn 20. janúar 1979 í Háskólabíó. Uppselt var á sýninguna í margar vikur þrátt fyrir hækkað miðaverð og röð var út úr dyrum á sýningum, eftir rúmar fimm vikur í sýningu höfðu 50 þúsund Íslendingar séð myndina.

„Ég man ekki eftir svona kröftugri aðsókn að bíómynd fyrr og alveg er ljóst að þessi mynd kemur til með að slá öll fyrri sýningarmet á Íslandi,“ sagði Friðfinnur Ólafsson forstjóri Háskólabíós í viðtali við Morgunblaðið 22. febrúar 1979. „Það var mikið happdrætti að taka þessa mynd, því hún var svo ný og dýr. Myndin þurfti mikla aðsókn ef ekki átti að verða stórtap á henni […] sýnir þetta að við getum tekið þá áhættu að taka splunkunýjar myndir til sýninga.“

Ljóst er að ótti stjórnenda Háskólabíós varð að engu, Grease æðið var komið til Íslands líkt og annarra landa, brilljantínbirgðir verslana kláruðust ítrekað og ungmenni landsins fengu ekki nóg af Grease og mörg þeirra sáu myndina aftur og aftur.

Grease fjallar um menntaskólanema á árunum 1950-1960 og lífið í skólanum og utan þess, ástir, vináttu, framavonir og fleira, allt undir dúndrandi dansi og tónlist, sem heillaði hug og hjörtu heimsbyggðarinnar ekki síður en myndin sjálf, enda hefur platan selst í yfir 30 milljón eintökum. Danny er fyrirliði strákagengisins T-fuglar (T-Birds), sem eru mestu töffararnir í skólanum Rydell High, og fallegasta stelpuklíka skólans er Bleiku dömurnar (Pink Ladies). Sandy er ástralskur skiptinemi, sem hefur nám við skólann og hittir þar aftur sumarástina sína, Danny, sem vill lítið kannast við hana þar sem hann óttast álit vina sinna yfir sambandi þeirra, enda Sandy er ekki jafn mikil skvísa útlitslega og Bleiku dömurnar.

Randal Kleiser leikstýrði kvikmyndinni sem var frumraun hans í leikstjórastólnum og Bronte Woodard skrifaði handritið.  Kvikmyndin var byggð á samnefndnum söngleik frá 1971 eftir Jim Jacobs og Warren Casey, sem fyrst var settur á svið í Chicago í Bandaríkjunum, ári síðar var hann settur á svið í Broadway í New York og 1973 í West End í London í Englandi. Söngleikurinn fagnar því fimmtugsafmæli á næsta ári.

Grease hefur verið sett upp þrisvar hér á landi af at­vinnu­leik­ur­um; í Borg­ar­leik­hús­inu 1998 með Selmu Björnsdóttur og Rún­ari Frey Gísla­syni, 2003 með Birgittu Hauk­dal og Jónsa í Svört­um föt­um og 2009 í Loftkastalanum með Ólöfu Jöru Skag­fjörð og Bjarti Guðmundssyni.

Og nú er komið að einum af vinsælustu söngvurum landsins í dag, Jóhönnu Guðrúnu og Ingó, að kynna Grease fyrir nýrri kynslóð og jafnframt að rifja lögin upp með kynslóðinni sem ólst upp við og heillaðist af lífinu og ástinni í Rydell High.

Grease er orðið…….

Myndir / Saga Sig