Á bæjarstjórnarfundi síðastliðinn fimmtudag voru málefni Hraunbúða rædd líkt og svo ótal oft á undanförnum misserum. Í raun má segja að síðustu tíu mánuðir hafi einkennst af umræðu um málið og gríðarlegur tími og vinna farið í að reka það, í góðri samvinnu allrar bæjarstjórnar og í samstarfi þeirra sveitarfélaga sem standa í sömu sporum og Vestmannaeyjabær. Síðastliðinn fimmtudag kvað þó við nýjan tón. Í fundargerð færði varabæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins bókun sem telur 143 orð. Það eitt og sér ætti ekki að koma sérstaklega á óvart en það sem er merkilegt er að í 143 orðum tekst varabæjarfulltrúanum að fara með rangt mál í fjögur skipti. Það hlýtur að vera einhvers konar met!

Í fyrsta lagi má þar lesa að „meirihluti E og H lista hafi klúðrað málefnum Hraunbúða undanfarið ár“. Í besta falli er þetta hálfsannleikur því hið rétta er að bæjarstjórn hefur öll unnið málið í mikilli samstöðu og samvinnu þar sem allir bæjarfulltrúar eru upplýstir áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar. Þó ég sé ekki sammála staðhæfingunni, vitandi það að það er í vinnslu, þá væri varabæjarfulltrúanum nær að lýsa frati á alla bæjarstjórn en ekki aðeins hluta hennar. Að auki ber að hafa í huga að við yfirfærsluna héldu starfsmenn áfram störfum sínum sem skipti öllu máli fyrir starfsemina og heimilisfólk á Hraunbúðum. Í öðru lagi telur varabæjarfulltrúinn að „fullyrt [hafi verið] af meirihlutanum að staldrað yrði við og metið hvort […] rekstrinum yrði haldið áfram, þ.e samningur gerður á sömu forsendum og áður“. Þetta er eitthvað algerlega nýtt og hefur ekki verið fullyrt á neinum formlegum fundum. En margt hefur verið rætt í gegnum ferlið eins og eðlilegt er enda þung skref að skila rekstrinum. Þegar bæjarráð og síðar bæjarstjórn samþykktu að skila rekstrinum til ríkisins og framlengja ekki samninginn við Sjúkratryggingar Íslands var það samþykkt 3-0 í bæjarráði og 7-0 í bæjarstjórn. Hugmyndin um að útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum borgi vanefndir ríkisins uppá hundruði milljóna króna var ekki talinn álitlegur kostur.

Í þriðja lagi segir varabæjarfulltrúinn að málin „þróuðust óhikað í þá stöðu sem nú er komin upp“. Þetta stenst ekki skoðun. Málin hafa reglulega verið rædd í bæjarráði og voru rædd á 16 fundum í bæjarráði og 9 fundum í bæjarstjórn í ferlinu. Auk þess má nefna að ég hef ekki tölu á öllum þeim óformlegu fundum sem bæjarfulltrúar hafa átt sín á milli og með lögfræðingum, stjórnendum HSU og fleiri aðilum um málið. Það tók 10 mánuði að skila rekstrinum en það voru allir bæjarfulltrúar sem ákváðu að segja upp rekstrinum. Alger samstaða.

Í fjórða lagi telur varabæjarfulltrúinn að „við höfum ekki lengur stjórn á þessum málaflokki sem snýr að dvalarþjónustu aldraðra í Vestmannaeyjum“. RANGT. Dvalarþjónustan (dagdvöl) er og verður áfram á forræði Vestmannaeyjabæjar. Stór hluti öldrunarþjónustu er á hendi sveitarfélaga og er mikill metnaður hjá Vestmannaeyjabæ að gera vel í þeim málflokki og gott dæmi er Janusar heilsueflingar verkefnið. Hjúkrunarrýmin (rekstur Hraunbúða) verða á ábyrgð og forræði ríkisins eins og lög kveða á um. HSU rekur Hraunbúðir og þar starfar enn það góða starfsfólk sem starfaði hjá Hraunbúðum þegar Vestmannaeyjabær rak heimilið. Upplýst umræða er alltaf góð. En við hljótum að gera þá kröfu að þeir sem taka þátt í umræðunni á vettvangi bæjarstjórnar kynni sér mál sem eru til umræðu. Það er lágmarks krafa að gera til bæjarfulltrúa sem sitja bæjarstjórnarfundi.

Njáll Ragnarsson