Goslokahátíðin hefst í dag með opnun ýmissa sýninga og viðburða víða um bæ. Einn stór viðkomustaður hátíðarinnar er ætíð menningarmistöð eldsumbrota eyjanna og gosminjasafnið Eldheimar. Á sýningunni “Kraftur aftur” í Eldheimum sýnir Erling T.V. Klingenberg ljósmyndir, skúlptúra, video og málverk eða skvettiverk eins og listamaðurinn nefnir þau. Opnun sýningarinnar er í dag kl. 17.00.

Erling er afar meðvitaður um útlit verkanna og hinar óhjákvæmilegu tilvísanir sem það vekur. Hins vegar er í raun seilst lengra en ætla mætti í fyrstu. Í stað þess að notast við hin hefðbundnu verkfæri málaralistarinnar, bursta, spaða og annað í þeim dúr, notar hann mótorhjól til að mála málverkin með því að setja málningarbakka undir aftara hjólið áður en hann snýr bensíngjöfinni og leysir úr læðingi hin hráu hestöfl hjólsins og skvettir málningu á strigann. Litir og hreyfing og hin frjálsa myndbygging málverkanna eru kunnugleg og minna kannski á eldgos en einnig liðna tíma, einsog verk Jacksons Pollocks og annarra abstrakt expressjónista. Hvað hyggst Erling fyrir nú? Er hann að gera tilkall til ákveðins tímabils í listasögunni, eins og hann hefur gert áður? Eða er hér e.t.v. um einlægari nálgun að ræða?

Skúlptúrarnir tveir sem sjá má á stöplum á sýningunni eru hauskúpur, annars vegar af manneskju og hins vegar af ketti. Árið 2010 fór listamaðurinn tvisvar að eldgosinu á Eyjafjallajökli og tók með sér til baka hraunmola frá því gosi. Síðar í vinnustofu sinni endurhitaði hann þessa hraunmola og við það sköpuðust þessar hraunperlur sem þekja hauskúpuna af manneskjunni. Á þessu ári, 2021, fór listamaðurinn einnig að eldgosinu í Geldingadal á Reykjanesinu og sótti sér hraunmola, sem hann jú aftur endurhitaði og þekja hraunperlur úr því eldgosi hauskúpu kattarins (sem fannst ekki ýkja langt frá Geldingdalseldgosinu).

Ljósmyndaserían heitir Eyja-Ekki eyja-Eyja-Ekki eyja þar sem meðal annars er velt fyrir sér hvort að sjá sé að trúa og að sjást sé að vera til.