Í gærkvöldi fór fram fundur í Bæjarstjórn Vestmannaeyja. Til umræðu var m.a. starfshættir kjörinna fulltrúa. Í þeirri umræðu lagði Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi fram tillögu um að hlutlausum aðila yrði falið að taka út vinnustaðamenningu á skrifstofum sveitarfélagsins með það að markmiði að kanna fylgni við reglugerð um einelti, kanna skilvirkni ferla um einelti og ofbeldi og að kanna umfang og eðli erfiðra samskipta og eineltis innan skrifstofa sveitarfélagsins.

Felldi meirihluti bæjarstjórnar tillöguna.

Njáll Ragnarsson lagði fram bókun í kjölfarið:
“Það er ákaflega varhugaverð þróun að kjörnir fulltrúar blandi sér með beinum hætti í starfsmannamál Vestmannaeyjabæjar. Slíkt grefur undan trausti á stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar sem verður að geta starfað óáreitt gagnvart kjörnum fulltrúum sérstaklega í viðkvæmum málum starfsfólks. Það getur ekki talist óeðlilegt þó bæjarstjóri vilji bera hönd fyrir höfuð sér þegar ásakanir gegn henni um meint einelti eru reknar í fjölmiðlum.”

Hildur Sólveig lagði næst fram bókun frá sér og Trausta Hjaltasyni:
“Það er miður að meirihlutinn sé ekki tilbúinn að ráðast í úttekt sem lítur að vinnuvernd starfsmanna en mikilvægt er að starfsmenn upplifi vellíðan í starfi, verkferlar séu skýrir og starfsmenn upplýstir um hvar þá sé að finna. Meirhlutinn átti hins vegar ekki í erfiðleikum með að ráðast í kostnaðarsama úttekt á kostnaði við steinsteypu í Fiskiðjunni sem skilaði engu.”