Vona að Vestmannaeyingar taki álfinum hálfa vel og njóti

0
Vona að Vestmannaeyingar taki álfinum hálfa vel og njóti
Jón Bjarki og Hlín með verðlaunagrip Skjaldborgar

„Það er virkilega gleðilegt að vera komin með myndina hingað á mínar heimaslóðir,“ segir Hlín Ólafsdóttir, framleiðandi heimildamyndarinnar Hálfur Álfur, sem sýnd verður í Eyjabíói næstkomandi sunnudag. Hlín og leikstjórinn Jón Bjarki Magnússon hafa verið í Vestmannaeyjum undanfarin misseri enda er hún fædd og uppalin hér í Eyjum. „Við höfum verið að taka á því á vertíð enda þarf einhvernveginn að borga upp allt þetta brölt sem kvikmyndagerðin hefur verið segir,“ segir Hlín og hlær við, en þau Jón Bjarki eru alla jafna búsett í Berlín.

Skjáskot úr myndinni

Hálfur Álfur er heimildamynd um afa og ömmu Jóns Bjarka, þau Trausta Breiðfjörð Magnússon, fyrrum vitavörð á Sauðanesi, og Huldu Jónsdóttur, bæði að nálgast hundrað árin. Jón Bjarki fylgdi þeim eftir með myndavélina síðustu árin svo úr varð hans fyrsta heimildamynd í fullri lengd, en þess má geta að Hlín semur tónlistina í verkinu. Myndin fjallar í stuttu máli um vitavörðinn Trausta sem tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför, hvort sem kemur á undan. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum.

Hálfur Álfur, sem hefur hlotið lofsamlega dóma gagnrýnenda, hlaut dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðar sem haldin var í Bíó Paradís síðastliðið haust og er tilnefnd til edduverðlauna sem besta heimildamyndin. Þá hefur hún verið sýnd á kvikmyndahátíðum víðsvegar um Evrópu.

Hlín og Jón Bjarki komu hingað til lands síðastliðið sumar með það að markmiði að sýna myndina á Skjaldborgarhátíðinni sem fara átti fram þá um verslunarmannahelgina. Skyndileg covid bylgja gerði það hinsvegar að verkum að hátíðinni var frestað um óákveðin tíma.

„Nú voru góð ráð dýr. Við vissum ekkert hvort eða hvenær yrði af sýningum,“ segir Hlín sem bætir við að foreldrar hennar, þau Stella Skaptadóttir og Ólafur Elísson, hafi í framhaldinu boðað þau á vertíð í Eyjum, að minnsta kosti á meðan þau væru að ráða ráðum sínum. Skjaldborgarhátíðin var loks haldin með pompi og prakt í Bíó Paradís í lok september, en önnur covid bylgja kom í veg fyrir að myndin færi í almennar sýningar. Þau Hlín og Jón Bjarki héldu því auðvitað aftur til Eyja til að bjarga verðmætum. Eftir ítrekaðar tilraunir fór myndin loks í almennar sýningar nú í vor og hefur verið tekið afar vel.

Skjáskot úr myndinni

„Óðurinn sem gömlu hjónin Trausti og Hulda syngja og kveða lífinu í Hálfur Álfur er svo einstakur að hann kemur við innsta kjarna hins sammannlega. Vekur trega og gleði á víxl í einföldu en um leið margræðu listaverki sem er eitthvað annað og miklu meira en heimildarmynd í nokkrum hefðbundnum skilningi,“ skrifaði gagnrýnandi Fréttablaðsins, Þórarinn Þórarinsson meðal annars um verkið í fjögurra störnu dómi.

Jón Bjarki vann myndina upphaflega sem meistaraverkefni í sjónrænni mannfræði við Freie Háskólann í Berlín, en sem fyrr segir þá sá Hlín um framleiðslu verksins ásamt Jóni auk þess sem hún semur tónlistina. Þau stefna aftur heim til Berlínar nú í haust glöð með að hafa loks náð að lenda verkinu en stefnan er tekin á sýningar á landsbyggðinni næstu vikurnar. „Það er einstaklega gaman að myndin komi í bíóhús hér í mínum heimabæ og ég vona að Vestmannaeyingar taki álfinum hálfa vel og njóti.“