Fyrrihluti Íslandsmóts skákfélaga 2021-2022 fór fram í Egilshöll-Fjölnishöll í Grafarvogi helgina 30. sept.- 3. október sl. Síðari hluti mótsins fer fram á sama stað í mars 2022. Keppt var í 5. deildum, þe. úrvalsdeild og 1.-4. deild. Alls tóku 49 skáksveitir þátt í mótinu og voru sex keppendur í hverri sveit, en átta í úrvalsdeild. Keppendur sem sem tóku þátt voru 350-400 talsins. Taflfélag Vestmannaeyja sendi sveitir í 1. deild, 3ju deild og 4. deild. Alls tóku 29 félagar í TV þátt á mótinu og tefldu 1-4 skákir hver. Þessir keppendur eru á öllum aldri, ýmist búsettir í Eyjum, Eyjamenn á fastalandinu og loks nokkrir skákmenn af höfuðborgarsvæðinu sem gengið hafa til liðs við TV og tefla í 1. deild.

Að loknum fjórum umferðum af sjö í mótinu er staðan þessi. Sveit TV er í efsta sæti í 1. deild með þrjá sigra og eitt jafntefli samtals 7 stig. Í öðru sæti er sveit Skákfélags Akureyrar b) sveit og í þriðja sæti Taflfélags Reykjavíkur b) sveit , Skákdeildar KR a) og Skákfélags Selfoss og nágrennis a) sveit. Búast má við að þessar fimm sveitir keppi um efstu tvö sætin í þeim þremur umferðum sem teflar verða í mars 2022.

Glæsilegur árangur hjá sveit TV, en liðstjóri er Þorsteinn Þorsteinsson margreyndur skákmeistari. Sveit TV í 3ju deild er í fimmta sæti af átta sveitum eftir fjórar umferðir með fjögur stig, tvo sigra og tvö töp. Árangur er í samræmi við væntingar og ekki líklegt að liðið blandi sé í baráttu um efstu tvö sætin í mars nk. Liðsstjóri er Hallgrímur Steinsson form. TV. Þá sendi TV einnig sveit til keppni í 4. deild en það er fjömennasta deildin með 15 keppnislið. Sveit TV er í 11.-12. sæti með þrjú stig einn sigur, eitt jafntefli og tvö töp. Liðstjóri TV í 4. deild er Ólafur Hermannsson. Það kostar umtalsverða eftirfylgni að halda úti þremur sveitum og nutu liðsstjórar þar aðstoðar Arnars Sigurmundssonar, fyrrv. form TV.