Félagi okkar og vinur Páll Pálmason lést 6. nóv. s.l. á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja eftir erfið veikindi. Með Palla Pálma eins og hann var ávallt kallaður er genginn félagi sem um langt árabil var burðarás í knattspyrnuliði okkar Eyjamanna. Hann hóf að leika knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Týr árið 1958 þá þrettán ára gamall. Hann lék svo með meistaraflokki Í.B.V. frá árinu 1962 aðeins 17 ára gamall sem aðalmarkmaður liðsins. Palli varði mark Í.B.V. árið 1967 þegar liðið vann sig upp í fyrstu deild í fyrsta sinn. Hann var á sínum tíma einn besti markvörður landsins og var m.a. valinn til að spila með landsliði Íslands og lék hann í markinu í landsleik við lið frá Bermunda. Hann varð þrisvar sinnum bikarmeistari og lék til úrslita fimm sinnum í bikarkeppninni og varð jafnframt Íslandsmeistari með Í.B.V. árið 1979. Palli spilaði ekki knattspyrnu með öðru liði en liði okkar Eyjamanna og lék sinn síðasta leik með meistaraflokki þá 41 árs gamall. Palli var valinn íþróttamaður Vestmannaeyja 1980. Hann kom jafnframt í áratugi að starfsemi Þrettándans í Eyjum og lék þar hlutverks jólasveins með miklum sóma. Þegar knattspyrnuferlinum lauk hóf hann að spila snóker af krafti og var einn besti snókerleikari Eyjanna og vann þar til margra verðlauna. Með Palla er genginn góður félagi sem setti sterkan svip á bæjar- og íþróttalíf okkar Eyjamanna. Íþróttahreyfingin kveður með söknuði góðan félaga og þakkar honum með virðingu samfylgdina. Við sendum eiginkonu Páls Pálmasonar og ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

f.h. Í.B.V. íþróttafélags

Þór Í.Vilhjálmsson
formaður